Íslenski boltinn

Katrín aftur í Stjörnuna: „Hlakka til að byrja aftur af krafti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Stjörnunnar vonast til að Katrín Ásbjörnsdóttir fái mörg tækifæri til að fagna mörkum í sumar.
Stuðningsmenn Stjörnunnar vonast til að Katrín Ásbjörnsdóttir fái mörg tækifæri til að fagna mörkum í sumar. vísir/eyjólfur garðarsson

Katrín Ásbjörnsdóttir hefur samið við Stjörnuna og mun leika með liðinu í sumar. Hún þekkir vel til hjá Stjörnunni en hún lék með liðinu á árunum 2016-18.

Katrín lék með KR á síðasta tímabili og skoraði þá fjögur mörk í ellefu leikjum í Pepsi Max-deildinni. Hún hefur alls leikið 147 leiki í efstu deild og skorað 65 mörk.

„Ég er ánægð með að hafa skrifað undir hjá Stjörnunni fyrir þetta tímabil. Ég þekki klúbbinn vel og hlakka til að byrja aftur af krafti. Liðið lítur vel út, með góða blöndu af ungum og efnilegum leikmönnum ásamt nokkrum reynsluboltum. Markmiðin mín eru að bæta við þá reynslu og hjálpa liðinu að ná góðum árangri á komandi leiktíð,“ sagði Katrín í tilkynningu frá Stjörnunni.

Velkomin í Stjörnuna Katrín! Katrín Ásbjörnsdóttir er mætt aftur í bláu treyjuna og er klár fyrir átökin sem framundan...

Posted by Stjarnan FC on Friday, May 7, 2021

Katrín er uppalinn KR-ingur en hefur orðið Íslandsmeistari með bæði Þór/KA og Stjörnunni. Þá lék hún eitt tímabil með Klepp í Noregi.

Katrín, sem er 28 ára, hefur leikið nítján A-landsleiki og skorað eitt mark. Hún lék með íslenska landsliðinu á EM 2017.

Stjarnan tapaði fyrir Val, 2-1, í fyrsta leik sínum í Pepsi Max-deildinni á tímabilinu. Næsti leikur Stjörnunnar er gegn nýliðum Keflavíkur á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×