Enski boltinn

Segir að United kaupi bara Sancho í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jadon Sancho gengur í raðir Manchester United í sumar segir Gary Neville.
Jadon Sancho gengur í raðir Manchester United í sumar segir Gary Neville. getty/Alex Gottschalk

Gary Neville á ekki von á því að Manchester United láti mikið til sín taka á félagaskiptamarkaðnum í sumar og félagið láti sér nægja að kaupa Jadon Sancho frá Borussia Dortmund.

Edinson Cavani skrifaði í gær undir nýjan eins árs samning við United. Neville segir að það þýði að félagið muni því ekki kaupa framherja í sumar. Erling Håland og Harry Kane hafa meðal annars verið orðaðir við United.

„Ég held þeir muni ekki kaupa annan framherja. Ég hef reyndar ekki sömu sambönd við félagið og áður en ég held að þetta verði svona,“ sagði Neville í Monday Night Football á Sky Sports í gær.

United reyndi að fá Sancho síðasta sumar en hann hélt kyrru fyrir hjá Dortmund. Hann gæti hins vegar fengist á mun hagstæðara verði í sumar.

„Þeir hafa ólmir viljað fá Sancho og voru gagnrýndir fyrir að kaupa hann ekki. En þeir líta mjög vel út ef þeir fá hann fyrir helmingi lægra verð,“ sagði Neville.

Hann segir að Cavani og Mason Greenwood verði aðalframherjar United á næsta tímabili.

„Ef United kaupir til dæmis bæði Kane og Sancho hvenær mun Cavani spila? Heldur Greenwood áfram að bæta sig? Hvað verður um [Marcus] Rashford? Hvar passar [Paul] Pogba inn?“ sagði Neville.

„Ef Sancho kemur verður hann á hægri kantinum og með Greenwood til vara. Frammi ertu með Cavani og Greenwood og þeir vilja að sá síðarnefndi haldi áfram að blómstra því hann er frábær. Á vinstri kantinum ertu svo með Rashford og [Anthony] Martial. Ég að það að fá Håland eða Kane virki ekki fyrir Manchester United miðað við hvernig þeir hafa keypt inn síðustu ár. Ég held þeir kaupi Sancho og láti það duga.“

United mætir Leicester City á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. United sækir svo Liverpool heim á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×