Enski boltinn

Liverpool græddi á VAR og Stóri Sam var bandsjóðandi brjálaður eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Sam Allardyce lét skoðun sína á dómgæslunni í ljós á hliðarlínunni í leik West Bromwich Albion og Liverpool í gær.
 Sam Allardyce lét skoðun sína á dómgæslunni í ljós á hliðarlínunni í leik West Bromwich Albion og Liverpool í gær. AP/Rui Vieira

Stuðningsmenn Liverpool hafa oft kvartað undan Varsjánni á síðustu árum en þeir þökkuðu fyrir hana í lífsnauðsynlegum 2-1 sigri á West Bromwich Albion í gær.

Markvörðurinn Alisson Becker kom til bjargar með því að skora sigurmark Liverpool í uppbótatíma en áður höfðu leikmenn WBA skorað mark sem fékk ekki að standa.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum þá skoraði Kyle Bartley mark. Hann var réttstæður en markið var dæmt af vegna þess að myndbandadómararnir töldu að rangstæður leikmaður WBA (Matt Phillips) hafi truflað útsýni Alisson Becker í Liverpool markinu.

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri WBA, var mjög ósáttur út í þennan dóm eftir leikinn og sagði hann vera skammarlegan.

„Það er auðvitað erfitt að sætta sig við svona. Við vildum ekki að úrslitunum yrði rænt af okkur, ekki af Liverpool, heldur vegna ákvarðana sem voru teknar í dag,“ sagði Sam Allardyce í viðtali við Birmingham Mail.

„Það voru ákvarðanir sem féllu gegn okkur í báðum mörkum Liverpool. Þetta átti ekki að vera aukaspyrna heldur dómarakast,“ sagði Allardyce.

„Svo skoruðum við mark. VAR á að vera þarna svo að útileikmenn geti skorað mörk. Þetta er fáránleg og svívirðileg ákvörðun þegar þú ert með VAR til að hjálpa þér. Nú hafa þeir dæmt tvisvar gegn okkur og það er ástæðan fyrir því að við fengum ekki þrjú stig í dag,“ sagði Allardyce.

„Þessar ákvarðanir eru meiri vonbrigði en eitthvað annað. Það er að segja að þetta sé skammarlegt er alltof varlega orðað,“ sagði Allardyce.

„Ef að þessi ákvörðun kemur frá Stockley Park þá er það út í hött. Ef þeir segja að dómarinn eða aðstoðardómarinn hafi dæmt markið af þá er það hneisa. Leikmaðurinn hefur engin áhrif á markvörðinn. Dómarinn á að þekkja reglurnar. Hann gerði mistök þarna. Ég get aðeins sagt hvað ég er vonsvikinn með að reyndur dómari geti gert slík mistök,“ sagði Allardyce.

Stóri Sam var ekki hættur því hann skaut líka á Jürgen Klopp.

„Gamli Jürgen hefur alltaf rétt fyrir sér, er það ekki. Þú veist hvað ég meina. Hann heldur alltaf að hann hafi rétt fyrir sér og kannski ég líka. Hann var heppinn í kvöld og hann veit það,“ sagði öskureiður Sam Allardyce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×