Enski boltinn

Cantona þriðji maðurinn inn í Heiðurshöllina: Stoltur en ekki hissa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Cantona átti fimm frábær tímabil með Manchester United og kom þar að 126 mörkum í 156 leikjum.
Eric Cantona átti fimm frábær tímabil með Manchester United og kom þar að 126 mörkum í 156 leikjum. Getty/Anton Want

Eric Cantona hefur verið valinn í Heiðurshöll ensku úrvalsdeildarinnar og bætist þar í hóp með þeim Thierry Henry og Alan Shearer.

Cantona kom til Manchester United haustið 1992 eftir að hafa unnið enska meistaratitilinn með Leeds United tímabilið á undan.

Cantona átti frábær ár hjá Manchester United og varð fjórum sinnum enskur meistari á fimm tímabilum.

„Ég er mjög ánægður og stoltur en á sama tíma kemur þetta mér ekki mikið á óvart. Það hefði verið óvænt ef ég hefði ekki verið valinn,“ sagði Eric Cantona í yfirlýsingu.

„Ég var heppinn að spila í þessu liði, með dásamlegum leikmönnum, undir stjórn dásamlegs knattsyrnustjóra og fyrir dásamlega stuðningsmenn. Við unnum og þetta var fótboltinn sem mig dreymdi um af því að þetta var Manchester United sem er klúbbur sem vill vinna en á réttan hátt,“ sagði Cantona.

Eric Cantona skoraði 70 mörk í 156 leikjum með Manchester United en hann átti einnig 56 stoðsendingar. Hann lagði skóna á hilluna árið 1997 en þá var hann aðeins þrítugur.

Uppáhaldsstund Cantona var þegar Manchester United vann meistaratitilinn vorið 1993 en það var fyrsti Englandsmeistaratitill félagsins í 26 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×