Fallið Ful­ham sótti stig á Old Traf­ford | Sjáðu magnað mark Cavani

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mark tímabilsins?
Mark tímabilsins? Premier League

Manchester United tókst aðeins að ná jafntefli gegn Fulham í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur 1-1 og slakt gengi Man United á heimavelli heldur áfram. Þá vann Leeds United 1-0 útisigur á Southampton.

Þegar stundarfjórðungur var liðinn skoraði Edinson Cavani það sem gæti mögulega verið mark tímabilsins. David De Gea lyfti boltanum þá frá marki sínu í átt að Bruno Fernandes sem var við miðlínu vallarins. Bruno virtist flikka boltanum áfram á Edinson Cavani sem lyfti boltanum snyrtilega yfir Alphonse Areola í marki Fulham af rúmlega 40 metra færi.

Eftir fjölda endursýninga var ákveðið að Cavani væri ekki rangstæður er Bruno flikkaði honum en stóra spurningin var í raun hvort Bruno hefði snert boltann. Ef hann hefði ekki náð snertingu var Cavani nefnilega fyrir innan.

Markið fékk hins vegar að standa og var það eina mark fyrri hálfleiks. Gestirnir gerðust aðgangsharðir í upphafi síðari hálfleiks en Manchester United fékk í kjölfarið urmul færa til að komast í 2-0 en allt kom fyrir ekki og þegar fimmtán mínútur lifðu leiks jafnaði Joe Bryan metin fyrir Fulham með fínum skalla á fjær eftir sendingu Decordova-Reid.

Staðan orðin 1-1 og reyndust það lokatölur. Fallið lið Fulham náði stigi á Old Trafford. Raunar hefur gengi Man United á heimavelli verið afleitt á leiktíðinni. Öll sex töp liðsins í deildinni hafa komið á heimavelli og þá hefur liðið fengið á sig 28 mörk. Eitthvað sem hefur ekki gerst síðan tímabilið 1962-1963.

Manchester United sem fyrr í 2. sæti, nú með 71 stig á meðan Fulham situr sem fastast í 18. sæti með 28 stig.

Patrick Bamford og Tyler Roberts skoruðu mörk Leeds United í 2-0 sigri liðsins á útivelli gegn Southampton.  Leeds komið upp í 8. sæti með 56 stig á meðan Southampton er í 14. sæti með 43 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira