Chelsea hefndi fyrir tapið um helgina og Meistara­deildar­vonir Leicester fara minnkandi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chelsea hefndi fyrir tapið um helgina.
Chelsea hefndi fyrir tapið um helgina. EPA-EFE/Catherine Ivill

Chelsea hefndi fyrir tapið í úrslitaleik FA bikarsins er liðið vann Leicester City 2-1 á Brúnni í kvöld. Annað árið í röð virðist Leicester City ætla henda frá sér Meistaradeildarsæti undir lok tímabils.

Chelsea óð í færum í fyrri hálfleik er Leicester heimsótti Brúnna í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Ljóst var að Chelsea ætlaði sér sigur eftir 1-0 tap gegn Leicester í úrslitaleik FA-bikarsins.

Timo Werner var allt í öllu í liði Chelsea en mark var tekið af honum eftir að boltinn fór í hendina á honum og þá hefði hann eflaust átt að fá vítaspyrnu en allt kom fyrir ekki og staðan var markalaus er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Það tók heimamenn aðeins tvær mínútur að komast yfir í síðari hálfleik. Miðvörðurinn Antonio Rüdiger þar að verki.

Þegar rúm klukkustund var liðin af leiknum fengu heimamenn vítaspyrnu. Jorginho fór á punktinn og skoraði af öryggi. Staðan orðin 2-0 og Meistaradeildarvonir Leicester á leiðinni út um gluggann.

Kelechi Iheanacho minnkaði muninn þegar tæpur stundarfjórðungur var liðinn og Ayoze Perez fékk kjörið tækifæri til að jafna metin í uppbótartíma en hitti ekki markið. Það ætlaði svo allt að sjóða upp úr undir lok leiks en Mike Dean, dómari leiksins, leysti úr flækjunni og allir skildu sáttir. Eftir sjö mínútur í uppbótartíma flautaði Dean af, lokatölur 2-1 Chelsea í vil.

Þegar allt ætlaði að sjóða upp úr.Catherine Ivill/Getty Images

Með sigrinum fer Chelsea upp í 3. sæti deildarinnar með 67 stig þegar ein umferð er eftir. Leicester er í 4. sæti með 66 en Liverpool er í 5. sæti með 63 stig og leik til góða. Þá er Liverpool með betri markatölu og vonir Meistaradeildarvonir Leicester hanga nú á bláþræði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira