Körfubolti

Með 30-20-10 þrennu í úrslitakeppni 1. deildar karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Medina Aldana náði magnaðri þrennu í gærkvöldi.
Jose Medina Aldana náði magnaðri þrennu í gærkvöldi. Fésbókin/Hamar Körfubolti

Spænski körfuboltamaðurinn Jose Medina Aldana átti stórleik þegar Hamar komst í 1-0 í undanúrslitum úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta í gær.

Hamar vann þá 105-101 sigur á Selfossi í framlengdum leik þar sem umræddur Aldana var með 30-20-10 þrennu.

Spænski leikstjórnandinn skoraði 33 stig, gaf 20 stoðsendingar og tók 10 fráköst. Hann skilaði alls 40 framlagsstigum til Hamarsliðsins í leiknum.

Aldana sem heldur upp á 28 ára afmælið sitt er á sínu fyrsta tímabili í Hveragerði en hann kom til Hamars frá þýska liðinu Münster.

Aldana var með 23,5 stig, 10,8 stoðsendingar og 6,2 fráköst að meðaltali í deildarkeppninni en var með 21,5 stig og 6,5 stoðsendingar í leik í átta liða úrslitunum á móti Hrunamönnum þar sem hann þurfti bara að spila 20 mínútur að meðaltali.

Aldana hefur nokkrum sinnum verið nálægt þrennu í 1. deildinni í vetur en þetta er í fyrsta sinn sem hún er í húsi hjá honum.

Ruud Lutterman (22 stig og 12 fráköst), Ragnar Jósef Ragnarsson (20 stig) og Pálmi Geir Jónsson (18 stig) nutu góðs af sendingum Aldana en Spánverjinn átti beinan þátt í 31 af 40 körfum Hamarsliðsins í leiknum.

Hamar er að reyna að komast upp í Domino´s deildina þar sem félagið hefur ekki verið síðan vorið 2011 eða í heilan áratug.

Hamar og Vestri eru bæði 1-0 yfir í undanúrslitaeinvígum sínum en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslitaeinvígið. Þar verður síðan spilað um laust sæti í Domino´s deildinni á næsta tímabili.

Vestramenn unnu 81-55 sigur á Skallagrími á Ísafirði þar sem Ken-Jah Bosley skoraði 34 stig og Nemanja Knezevic var með 21 frákast og 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×