Enski boltinn

Hislop: Liverpool mun klúðra þessu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah félagar ættu að komast í Meistaradeildina með tveimur góðum sigrum á Burnley og Crystal Palace.
Mohamed Salah félagar ættu að komast í Meistaradeildina með tveimur góðum sigrum á Burnley og Crystal Palace. EPA-EFE/Phil Noble

Úrslitin í leik Chelsea og Leicester City voru líklega þau verstu í boði fyrir Liverpool en það breytir ekki því að lærisveinar Jürgen Klopp ættu að komast í Meistaradeildina með sigrum í síðustu tveimur leikjum sínum.

Chelsea vann 2-1 sigur á Leicester City í gær og er þar með einu stigi á undan Leicester og fjórum stigum á undan Liverpool. Liverpool getur komist upp að hlið Leicester, einu stigi á eftir Chelsea, með sigri í kvöld í leiknum sem liðið á inni.

Það að Chelsea skyldi vinna svona nauman sigur þýðir að ekkert má klikka hjá Liverpool sem þarf væntanlega bæði sex stig sem og að bæta markatöluna til að enda fyrir ofan Leicester.

Lokaleikir Liverpool liðsins eru á móti Burnley og Crystal Palace sem bæði hafa að litlu að keppa. Frammistaða Liverpool á móti liðum í neðri hlutanum hefur aftur á móti verið allt annað en sannfærandi og því eru stuðningsmenn Liverpool örugglega allt annað en rólegir.

Það er spurning hvernig spá Shaka Hislop á ESPN fari síðan í þá en gamli markvörðurinn sem spilaði yfir tvö hundruð leiki í ensku úrvalsdeildinni er ekki bjartsýnn fyrir hönd Liverpool liðsins.

Hislop hefur nefniega ekki trú á því að Liverpool tryggi sér sæti í Meistaradeildinni þrátt fyrir að vera aðeins tveimur sigrum frá því.

„Mín tilfinning er að Liverpool rétt missi af Meistaradeildarsætinu. Ef við lítum á það hvaða miðverði þeir eru með og hvað liðið er fyrirsjáanlegt. Liðin sem þau mæta eru pressulaus og munu gefa Liverpool mönnum hausverk,“ sagði Shaka Hislop.

„Liverpool mun klúðra þessu og tapa stigum í þessum síðustu tveimur leikjum en ég held líka að bæði Chelsea og Leicester vinni lokaleiki sína og þessi úrslita í gær munu því skipta minna máli,“ sagði Hislop en það má sjá hvað hann sagði með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×