Enski boltinn

Guardiola: Manchester City verður að læra af titilvörn Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ilkay Gundogan fagnar marki Manchester City á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
Ilkay Gundogan fagnar marki Manchester City á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Getty/Matt McNulty

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er strax farinn að undirbúa sitt lið andlega fyrir næsta tímabil.

Manchester City hefur verið yfirburðarlið í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Liðið er löngu orðið meistari og er með tólf stiga forystu fyrir lokaumferðina.

Liverpool tók titilinn af City í fyrra og vann þá yfirburðasigur en það var lítið að frétta af titilvörn Liverpool á þessari leiktíð.

Football Focus á BBC fékk spænska knattspyrnustjórann til að fara yfir tímabilið og að velta fyrir sér framhaldinu hjá Manchester City og öðrum liðum í ensku úrvalsdeildinni.

Það eru enn tveir leikir eftir af tímabilinu hjá Manchester City, lokaleikurinn í deildinni og svo úrslitaleikur Meistaradeildarinnar. Knattspyrnustjórinn er strax farinn að hafa smá áhyggjur af einbeitingu sinna leikmanna fyrir næsta tímabil.

Pep Guardiola talaði sérstaklega í viðtalinu við breska ríkisútvarpið um gengi Liverpool á þessari leiktíð sem víti til varnaðar fyrir liðsmenn síns í Manchester City. Hann er líka á því að þetta tímabil hafi verið erfiðara vegna kórónuveirufaraldursins.

„Það þurfa allir að fara í gegnum erfið ár og það eru margar mismunandi ástæður fyrir því. Það er erfitt að vinna alla titla en þessi var aðeins erfiðari fyrir alla vegna faraldursins og lokananna,“ sagði Pep Guardiola.

Liverpool fékk átján fleiri stig en Manchester City á síðustu leiktíð en síðan hefur orðið 35 stiga sveifla og City er nú sautján stigum á undan Liverpool.

„Liverpool liðið var óstöðvandi á síðustu leiktíð og allir héldu að það yrði eins á þessu tímabili. Það er aftur á móti góð kennslustund fyrir okkur. Það er ekki hægt að ganga að neinu vísu og allt getur gerst,“ sagði Pep.

„Við getum lent í meiðslum á næsta tímabili en lent í slæmum köflum. Þess vegna verður alltaf að vera kveikt á viðvörunarljósinu og við þurfum að tengja það okkar ákvörðunum. Við þurfum að síðan að vera stöðugir og samkeppnishæfir í framtíðinni,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×