Opinberar tölur segja um 3,4 milljónir manna hafa dáið. WHO segir mögulegt að sex til átta milljónir manna hafi í raun dáið vegna covid-19 í heiminum.
WHO segir líklegt að töluvert vanti upp á að dauðsföll séu skráð vegna Covid-19, bæði með beinum og óbeinum hætti. Er þar til dæmis átt við tilfelli þar sem fólk hefur ekki leitað sér læknisþjónustu vegna faraldursins.
Í mörgum ríkjum heimsins búi yfirvöld ekki yfir getu til að skrá öll dauðsföll með réttum hætti. Þá er einnig útlit fyrir að töluvert vanti upp á tölurnar hjá þróuðum ríkjum, eins og ríkjum Evrópu.
Sérfræðingar stofnunarinnar áætla að þrjár milljónir manna hafi mögulega dáið vegna Covid-19 það sem af er þessu ári, samkvæmt frétt New York Times. Samkvæmt opinberum tölum hefur 1,8 milljón manna dáið á árinu.
Tölfræðigreining WHO byggir á því að skoða fjölda dauðsfalla á meðan faraldur nýju kórónuveirunnar hefur herjað á íbúa jarðarinnar og bera þá tölu saman við meðaltal látanna á árunum fyrir faraldurinn.
Þannig fær stofnunin út að mögulega hafi 1,1 til 1,3 milljón manna dáið í Evrópu og er það um tvöfalt meira en opinberar tölur segja til um. Þá segir stofnunin að 1,3 til 1,5 milljónir hafi dáið í Norður- og Suður-Ameríku, þar sem 900 þúsund hafa dáið samkvæmt opinberum tölum.