Golf

Mickelson og Oosthuizen leiða eftir annan hring

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hinn fimmtugi Mickelson stendur vel eftir fyrstu hringina tvo. Kylfingur á sextugsaldri hefur ekki náð efstu tíu sætunum á mótinu síðan 2000.
Hinn fimmtugi Mickelson stendur vel eftir fyrstu hringina tvo. Kylfingur á sextugsaldri hefur ekki náð efstu tíu sætunum á mótinu síðan 2000. Getty Images/Elsa

Öðrum hring PGA-meistaramótsins í golfi á Kiawah-eyju í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum lauk í nótt. Suður-Afríkumaðurinn Louis Oosthuizen lék manna best í gær og leiðir mótið ásamt Phil Mickelson.

Oosthuizen lék hring gærdagsins á fjórum höggum undir pari þar sem hann fékk fimm fugla og einn skolla. Hann fór fyrri hringinn á einu höggi undir pari og er því á fimm höggum undir parinu í heildina.

Mickelson hafði leikið einu höggi betur á fyrri hringnum en í gær náði hann í sex fugla en fékk þrjá skolla. Hann fór hringinn því á þremur undir pari og deilir toppsætinu með Oosthuizen. Mickelson er fimmtugur en það hefur ekki kylfingur sem er fimmtugur eða eldri endað í efstu tíu sætunum á meistaramótinu síðan Tom Watson tókst það árið 2000.

Brooks Koepka er þriðji á fjórum undir parinu en hann lék á höggi undir pari vallar á seinni hringnum. Japaninn Hideki Matsuyama er sá eini sem lék eins vel og Oosthuizen í gær, einnig á fjórum undir pari, og er á þremur undir í 4.-6. sæti. Sætunum deilir hann með tveimur löndum Oosthuizen, þeim Christian Bezuidenhout og Branden Grace.

Kanadamaðurinn Corey Conners, sem leiddi eftir fyrsta hringinn, gekk ekki eins vel í gær - fór hringinn á þremur yfir pari - og er í 7.-11. sæti á tveimur undir pari ásamt þremur öðrum kylfingum.

Norður-Írinn Rory McIlroy komst í gegnum niðurskurð en hann er á þremur yfir pari eftir að hafa farið annan hringinn á pari. Tony Finau, Rickie Fowler, Justin Rose og Jon Rahm er á meðal kylfinga sem deila því skori.

Þónokkrir öflugir kylfingar hafa helst úr lestinni þar sem þeir komust ekki í gegnum niðurskurðinn, er þeir voru á sex höggum yfir pari eða hærra eftir hringina tvo. Þar má meðal annarra nefna Xander Schauffele, Justin Thomas, Dustin Johnson, Tommy Fleetwood og Sergio Garcia.

Þriðji hringur mótsins er í dag og hefst bein útsending frá Kiawah-eyju klukkan 17:00 á Stöð 2 Golf.

Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum. Helgarpassa að Stöð 2 Golf má kaupa á kerfum Vodafone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×