Enski boltinn

Sendi Liverpool mönnum skilaboð eftir að hafa unnið Man. Utd í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alberto Moreno fagnar með Evrópudeildarbikarinn eftir sigur Villarreal á Manchester United.
Alberto Moreno fagnar með Evrópudeildarbikarinn eftir sigur Villarreal á Manchester United. AP/Michael Sohn

Alberto Moreno varð Evrópudeildarmeistari með Villarreal á miðvikudagskvöldið og skoraði í vítakeppninni. Eftir leikinn ákvað hann að senda stuðningsmönnum gamla félagsins síns kveðju.

Manchester United var spáð þægilegum sigri á móti Villarreal en Moreno og félagar í spænska liðinu höfðu aðrar hugmyndir og tryggðu sér fyrsta Evróputitil félagsins. Manchester United hefur ekki unnið titil síðan 2017.

Moreno tók upp símann sinn inn í búningsklefanum eftir leikinn og beindi orðum sínum til stuðningsmanna Liverpool liðsins.

„Til allra stuðningsmanna Liverpool. Vamos (Byrjum þetta). Man Utd út með ykkur. Burtu með ykkur Man Utd, út með ykkur,“ sagði Alberto Moreno skellihlæjandi í sigurvímu eftir leikinn.

„You'll Never Walk Alone. (Þú gengur aldrei einsamall). Alltaf. Liverpool á alltaf sinn stað í hjarta mínu,“ sagði Moreno eins og sjá má hér fyrir neðan.

Moreno fékk mikla gagnrýni á sig á lokaárum sínum á Anfield en ást hans á Liverpool minnkaði ekkert við það. Hann vann sér örugglega inn mörg stig með kveðju sinni á miðvikudagskvöldið.

Moreno kom til Liverpool sumarið 2014 og var hjá félaginu í fimm ár. Hann er núna 28 ára gamall.

Síðasti leikur Moreno með Liverpool var úrslitaleikur Meistaradeildarinnar vorið 2019 en hann hafði áður tapað með liðinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Þetta var í annað skiptið sem Moreno vann Evrópudeildina en það gerði hann líka með Sevilla liðinu árinu 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×