Erlent

Tveir látnir og yfir tuttugu særðir eftir skot­á­rás

Sylvía Hall skrifar
Lögreglu barst tilkynning skömmu eftir miðnætti að staðartíma.
Lögreglu barst tilkynning skömmu eftir miðnætti að staðartíma. Getty

Allt að 25 eru særðir og tveir eru látnir eftir skotárás í norðvesturhluta Miami Dade-sýslu í Flórídaríki í Bandaríkjunum. Einn hinna særðu er í lífshættu eftir skotárásina.

Þetta staðfestir lögregla á svæðinu við staðarmiðilinn Miami Herald. Talið er að árásarmennirnir hafi verið nokkrir en þeir mættu á hvítum Nissan Pathfinder að tónleikastað, stigu út úr bílnum með árásarriffla og skammbyssur og hófu skothríð í átt að hópi tónleikagesta.

Alfredo Ramirez, lögreglustjóri í sýslunni, telur árásina skipulagða. Hann hefur miklar áhyggjur af tíðni skotárása á svæðinu, en þetta var önnur skotárásin í Miami yfir helgina. Á laugardag var einn skotinn til bana og sex voru særðir eftir skotárás á Wynwood-svæðinu.

„Þetta verður að stöðva. Þetta er sama sagan allar helgar. Þetta er úthugsað, ekki tilviljanakennt,“ sagði Ramirez.

Hann segir lögregluna þurfa að bregðast við og vinna að öruggara samfélagi.

„Það er mjög erfitt að stöðva lítinn hóp einstaklinga sem virkilega vilja fara út og fremja morð. Við þurfum öll að vinna að því að stöðva það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×