Hin átján ára gamla Júlíana Karitas varð Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna eftir 21-19 og 21-19 sigur á Sigríði Árnadóttur en báðar eru þær í TBR. Daníel vann úrslitalitaleikinn í einliðaleik karla á móti Róberti Inga Huldarssyni úr BH 21-12 og 21-16.
Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitillinn Júlíönu í meistaraflokki en Daníel hafði áður orðið Íslandsmeistari í tvíliðaleik árið 2018.
Elsa Nielsen og Drífa Harðardóttir úr TBR og ÍA urðu Íslandsmeistarar í tvíliðaleik kvenna. Þær unnu þær Örnu Karen Jóhannsdóttur og Sigríði Árnadóttur TBR í úrslitaleiknum 21-13 og 27-25.
Elsa og Drífa eiga marga Íslandsmeistaratitla á ferilsskránni sinni en Elsa varð Íslandsmeistari í einliðaleik árin 1991-1995 og svo aftur árin 1998-2000. Það eru því þrjátíu ár frá hennar fyrsta titli. Þá varð Elsa Íslandsmeistari í tvíliðaleik árin 1994-2000 og í tvenndarleik árin 1994, 1996 og 2002.
Drífa varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik árin 2004, 2015-2016 og 2019. Þá varð hún einnig Íslandsmeistari í tvenndarleik árin 1998-1999, 2003-2004, 2006 og 2020.
Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson úr TBR tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð í tvíliðaleik karla en þeir unnu Daníel Jóhannesson og Jónas Baldursson í oddaleik í úrslitunum 21-16, 16-21 og 24-22. Þeir félagar hafa unnið titilinn fjórum sinnum á síðustu fimm árum.
Kristófer Darri og Drífa unnu bæði tvöfalt því þau urðu einnig Íslandsmeistarar í tvenndarleik eftir að hafa unnið Daníel Jóhannesson og Sigríði Árnadóttur úr TBR í jöfnum úrslitaleik 21-17 og 21-18. Sigríður tapaði því öllum þremur úrslitaleikjunum í ár.