Klukkan 17:29 í dag mun Falcon 9, eldflaug SpaceX, taka á loft með vistir og tilraunabúnað innanborðs. Áfangastaðurinn er Alþjóðlega geimstöðin (ISS) en NASA samdi nýverið við SpaceX um að annast farþega- og fraktflutninga til stöðvarinnar.
Smokkfiskarnir verða nýttir við rannsóknir á áhrifum geimflugs á samlífi dýra og örvera. Ónæmiskerfi smokkfiska er keimlíkt ónæmiskerfi manna.
Nasa segir tilraunina munu koma að gagni við þróun öryggisbúnaðar sem á að vernda heilsu geimfara í lengri geimferðum.

„Dýr, þar á meðal menn, reiða sig á örverur til að viðhalda heilbrigðu meltingar- og ónæmiskerfi. Við vitum ekki fullkomlega hvaða áhrif geimferðir hafa á þetta gagnlega samlífi.“ segir Jamie Foster, yfirvísindamaður tilraunarinnar, í samtali við breska ríkisútvarpið.
Smokkfiskar verða ekki einu dýrin sem fá far með eldflauginni. Auk þeirra munu 5.000 bessadýr fylgja með. Bessadýr eru fjölfrumungar sem geta lifað við nánast hvaða aðstæður sem er. Þau verða nýtt við rannsóknir á áhrifum harðneskjulegs umhverfis geimsins á mannslíkamann.
