Enski boltinn

Fyrrum leikmaður vandar Arsenal ekki kveðjurnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Petit skilur ekkert í stefnu Mikel Arteta og félaga hans hjá Arsenal.
Petit skilur ekkert í stefnu Mikel Arteta og félaga hans hjá Arsenal. EPA-EFE/NEIL HALL

Emmanuel Petit, fyrrum leikmaður Arsenal, er ekki sáttur með framgöngu félagsins á félagaskiptamarkaðnum en hann var í löngu spjalli við talkSport á Englandi.

Arsenal barðist við Aston Villa um Emilano Buendia en nú virðist sem svo að Bunedia, sem er samningsbundinn Norwich, hafi valið Aston Villa fram yfir Arsenal.

Villa á að hafa yfirboðið Arsenal og Buendia verður tilkynntur sem nýr leikmaður eftir að hafa lokið sér af með argentínska landsliðinu gegn Kólumbíu á fimmtudag.

Villa greindi frá því að félagið og Norwich hefðu náð samkomulagi um félagaskiptin í gær.

Petit lék með Arsenal á árunum 1997 til 2000 en einig lék hann með Mónakó, Barcelona og Chelsea á sínum ferli. Hann vandar Arsenal ekki kveðjurnar.

„Hversu marga vitlausa leikmenn hafa þeir keypt til Arsenal? Varnarmenn eins og Mustafi og Sokratis, sem gera það sama. Þeir bættu við endalaust af leikmönnum en það var enginn munur á þeim,“ sagði Petit við talkSPORT.

„Núna eru þeir komnir á endastöð. Gerið breytingar, því þið verðið að gera það. Þetta hefur verið það sama síðustu ár en hvað hafa þeir gert? Þetta er ekki spurning um peninga því þeir eru með peningana.“

„Eftir allt fjaðrafokið í kringum Ofurdeildina, eftir gremjuna á félagaskiptamarkaðnum og leikmennina sem yfirgáfu þá, þá skil ég að þeir verði að borga niður lánin sem þeir tóku fyrir Emirates leikvanginum.“

„Ég get skilið það en það er ekki sagan lengur. Ekki segja mér að þetta sé vegna kórónuveirunnar. Hvernig velja þeir hæfileikaríka menn? Hvernig velja þeir prófílana sem þeir vilja? Hvað er markmiðið?“ sagði pirraður Petit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×