Herinn rændi völdum í Búrma og handtók Suu Kyi forseta 1. febrúar. Hún hefur síðan þá dúsað í stofufangelsi þaðan sem lítið hefur spurst til hennar. Nú hefur herinn ákært Suu Kyi fyrir spillingu en það er alvarlegasta brotið sem hann hefur sakað hana um til þessa, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Á Suu Kyi að hafa þegið reiðufé og gull í mútur, alls 600.000 dollara, jafnvirði 72,4 milljóna íslenskra króna, og sjö gullstykki. Auk þess er hún ákærð fyrir önnur smærri brot, þar á meðal ólöglegan innflutning á labbrabbtækjum og að hvetja til óeirða.
Fleiri embættismenn í stjórn Suu Kyi sæta ákærum fyrir spillingu og mútuþægni.
Þegar herinn rændi völdum hélt hann því fram að svik hefðu verið framin í kosningum í fyrra. Alþjóðlegir eftirlitsmenn hafa þó sagt að kosningarnar hafi farið vel fram. Ákærurnar á hendur Suu Kyi eru taldar eiga sér pólitískar rætur.
Öryggissveitir herforingjastjórnarinnar hafa drepið fleiri en 800 manns og fangelsað hátt í fimm þúsund í tengslum við mótmæli sem hafa geisað gegn henni frá valdaráninu.