Innlent

Haraldur þiggur ekki annað sæti ef hann tapar odd­vita­slagnum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Haraldur Benediktsson er oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi.
Haraldur Benediktsson er oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi. vísir/vilhelm

Haraldur Bene­dikts­son, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Norð­vestur­kjör­dæmi, mun ekki þiggja annað sæti á lista flokksins í kjör­dæminu ef hann tapar bar­áttunni um odd­vita­sætið við Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dóttur í próf­kjöri flokksins um næstu helgi.

Þetta sagði hann í við­tali við vest­firska miðilinn Bæjarins besta í dag.

Þar sagði hann að það væru skýr skila­boð frá flokks­mönnum ef þeir vildu annan en hann í fyrsta sætið. „Það getur ekki verið gott fyrir nýjan odd­vita að hafa þann gamla í aftur­sætinu.“

Fáheyrt að þingmaður vinni ráðherra og varaformann

Margt hefur breyst frá því að þau Haraldur og Þór­dís Kol­brún háðu saman bar­áttu fyrir flokkinn í kjör­dæminu fyrir síðustu al­þingis­kosningar. Haraldur leiddi þá listann og var Þór­dís Kol­brún í öðru sætinu. Þau voru þau einu á listanum sem komust á þing fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn í Norð­vestur­kjör­dæmi.

Þegar ríkis­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Vinstri grænna og Fram­sóknar­flokksins var mynduð var Þór­dísi Kol­brúnu hins vegar boðið ráð­herra­sæti, sem ferða­mála- iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, en ekki Haraldi. Hún varð síðan vara­for­maður flokksins í mars 2018.

Það er því nokkuð sér­stök staða uppi í kjör­dæminu hjá Sjálf­stæðis­flokknum. Það er auð­vitað fá­heyrt að vara­for­maður og ráð­herra flokks tapi í odd­vita­slag í kjör­dæmi sínu en eftir því sem Vísir kemst næst er tví­sýnt um úr­slitin og gæti vel farið svo að Haraldur vinni en hann á sterkt bak­land í kjördæminu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×