Innlent

Þór­dís og Haraldur etja kappi í Norð­vestur­kjör­dæmi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þórdís Kolbrún og Haraldur sækjast bæði eftir oddvitasæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Þórdís Kolbrún og Haraldur sækjast bæði eftir oddvitasæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Vísir

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi stendur nú yfir og því lýkur á laugardaginn, 19. júní. Fyrri dagur prófkjörs er í dag en Norðvesturkjördæmi er síðasta kjördæmið til þess að halda prófkjör fyrir komandi Alþingiskosningar.

Níu frambjóðendur taka þátt í prófkjörinu, þar á meðal Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Haraldur Benediktsson, þingmaður og bóndi, en þau sækjast bæði eftir oddvitasæti á framboðslista flokksins í kjördæminu.

Haraldur hefur tilkynnt það að hljóti hann ekki kjör í oddvitasætið muni hann ekki taka sæti á listanum. Hann hefur sætt nokkurri gagnrýni fyrir það og hafa sérstaklega Sjálfstæðiskonur gagnrýnt hann og meðal annars sakað hann um að standa í hótunum við samflokksmenn sína og kjósendur.

Haraldur sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að gagnrýnin kæmi sér á óvart. Honum þyki það eðlilegur hlutur að tapi leiðtogi flokksins í kjördæminu oddvitasæti stígi hann til hliðar og hleypi nýjum leiðtoga að.

Guðrún Sigríður Ágústsdóttir, matreiðslumaður og ráðgjafi, sækist eftir 2. til 3. sæti á lista flokksins. Þá sækist Teitur Björn Einarsson, lögmaður og 1. varaþingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi, eftir öðru sæti á listanum.

Magnús Magnússon, sóknarprestur á Hvammstanga, sveitarstjórnarfulltrúi og aðalmaður byggðarráðs í Húnaþingi vestra, sækist eftir 3. til 4. sæti á listanum. Bjarni Pétur Marel Jónasson sækist eftir fjórða sæti á listanum auk þess sem Sigríður Elín Sigurðardóttir, sjúkraflutningakona og nemi, sækist eftir sama sæti.

Þá sækjast Örvar Már Marteinsson, skipstjóri, og Bergþóra Ingþórsdóttir, nemi, eftir sæti á listanum.

Kosið er á sautján stöðum í kjördæminu og verða allir kjörstaðir opnir bæði í dag og á laugardag. Opnunartímar eru breytilegir eftir kjörstöðum en hægt er að kynna sér opnunartíma þeirra nánar hér. 


Tengdar fréttir

Haraldur hissa á við­brögðum Sjálf­stæðis­kvenna

Viðbrögð Sjálfstæðiskvenna við yfirlýsingu Haraldar Benediktssonar ,um að hann muni ekki taka sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi hljóti hann ekki kjör í oddvitasæti, komu Haraldi í opna skjöldu. Hann segist ekki hafa leynt því að hann hyggist ekki sitja á listanum beri Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sigur úr bítum í oddvitabaráttunni.

Haraldur þiggur ekki annað sæti ef hann tapar odd­vita­slagnum

Haraldur Bene­dikts­son, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Norð­vestur­kjör­dæmi, mun ekki þiggja annað sæti á lista flokksins í kjör­dæminu ef hann tapar bar­áttunni um odd­vita­sætið við Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dóttur í próf­kjöri flokksins um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×