Íslenski boltinn

Markahæsti þáttur sumarsins í Mjólkurbikarmörkunum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallgrímur Mar Steingrímsson og Elfar Árni Aðalsteinsson fagna marki KA í sumar en KA hefur unnið Stjörnumenn tvisvar sinnum í Garðabænum á tímabilinu.
Hallgrímur Mar Steingrímsson og Elfar Árni Aðalsteinsson fagna marki KA í sumar en KA hefur unnið Stjörnumenn tvisvar sinnum í Garðabænum á tímabilinu. Vísir/Hulda Margrét

Það verður boðið upp á mikla markaveislu og mikið af óvæntum úrslitum þegar farið verður yfir 32 liða úrslit Mjólkurbikarsins í kvöld.

Henry Birgir Gunnarsson og Þorkell Máni Pétursson munu sýna þá mörkin úr öllum sextán leikjum Mjólkurbikarsins í vikunni en 32 liða úrslitunum lýkur með fjórum leikjum í kvöld.

Einn af leikjum kvöldsins verður sýndur beint á undan þættinum en það er leikur Íslandsmeistara Vals og Leiknismanna á Origo vellinum á Hlíðarenda. Sá leikur hefst klukkan 19.15 og verður í beinni á Stöð 2 Sport 4. Mjólkurbikarmörkin hefjast síðan strax á eftir eða klukkan 21.15.

Það var heilmikið um óvænt úrslit í þessari umferð og það er líka alltaf fróðlegt fyrir íslenska knattspyrnuáhugamenn að fá svipmyndir af völlum og af liðum sem spila í neðri deildunum og eru því sjaldan í sjónvarpinu.

Eyjamenn sáu þannig 3. deildarliðið sitt KFS slá út Lengjudeildarlið Víkinga frá Ólafsvík en á sama tíma tapaði ÍBV liðið á móti 2. deildarliði ÍR. 2. deildarlið Hauka og Völsungs komust líka áfram í sextán liða úrslitin. Þar verða líka Lengjudeildarliðin Fjölnir, Vestri og Þór Akureyri.

Það er síðan aldrei að vita hvort að við fáum fleiri svokölluð „Cupset“ þegar 32 liða úrslitin klárast í kvöld.

Mjólkurbikarmörk 32 liða úrslitanna eru sá fótboltaþáttur á Stöð 2 Sport á hverju sumri sem fjallar um flesta leiki í einu og því er nokkuð ljóst að hér er á ferðinni markahæsti þáttur sumarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×