Enski boltinn

Liver­pool fær grænt ljós frá um­boðs­manni Brasilíu­mannsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Otavio í leik með Porto á móti Liverpool í Meistaradeildinni vorið 2019.
Otavio í leik með Porto á móti Liverpool í Meistaradeildinni vorið 2019. Getty/Matthew Ashton

Brasilíumaðurinn Otavio gæti orðið leikmaður Liverpool á næstu vikum en Jürgen Klopp hefur áhuga á þessum miðjumanni Porto liðsins.

Það lítur því út fyrir að þessi 26 ára gamli leikmaður sé sá líklegasti til að fylla skarð Georginio Wijnaldum inn á miðju Liverpool liðsins. Wijnaldum rann út á samning í sumar og samdi í kjölfarið við Paris Saint Germain í Frakklandi.

Í fyrstu virtist áhuginn á Otavio og Liverpool koma aðallega úr herbúðum leikmannsins sjálfs en Klopp er nú sagður hafa áhuga á leikmanninum.

Umboðsmaður Otavio segir aftur á móti í nýju viðtali að Liverpool sé með grænt ljóst að fara á eftir leikmanni sínum. „Þetta er gott fyrir bæði Porto og Otavio,“ sagði umboðsmaðurinn í samtali við portúgalska blaðið A Bola.

Otavio hefur spilað með Porto frá árinu 2014 og á að baki í kringum tvö hundruð leiki fyrir félagið. Hann er með 19 mörk og 49 stoðsendingar fyrir portúgalska félagið.

Otavio er mjög fjölhæfur miðjumaður en í 46 leikjum sínum með Porto á síðustu leiktíð þá lék hann í sex mismundandi stöðum og miðju og í sókn. Hann er þó oftast vinstra megin á miðjunni þó að óska staða hans sé framarlega á miðjunni.

Það var hægt að kaupa upp samning Otavio fyrir 34 milljónir punda í júní en sú upphæð fór upp í 51,5 milljónir punda um mánaðamótin. Það er almennt talið að Porto sé tilbúið að selja leikmanninn fyrir mun lægri upphæð en það. Liverpool er líka líklegt til að bjóða annan leikmann með í kaupbæti og þar hefur Marko Grujic verið nefndur á nafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×