Erlent

Hvetur foreldra, kennara og aðra til að vakta ungmenni og tilkynna þau til lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong á vikulegum blaðamannafundi sínum í dag.
Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong á vikulegum blaðamannafundi sínum í dag. AP/Kin Cheung

Lögreglan í Hong Kong hefur handtekið níu manns vegna meintrar hryðjuverkaógnar. Meðal hinna handteknu eru sex krakkar í menntaskóla en fólkið er fimmtán til 39 ára. Lögreglan segir þau hafa leigt hótelherbergi til að framleiða þar sprengjur og markmið hópsins hafi verið að gera sprengjuárásir á skotmörk í borginni.

Hald mun hafa verið lagt á sprengiefni sem kallast triacetone triperoxide eða TATP, samkvæmt frétt BBC.

Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong fyrir hönd Kommúnistaflokk Kína, varaði nýverið við því að „ólögleg hugmyndafræði“ væri í dreifingu meðal ungmenna. Hvatti hún foreldra, kennara og aðra til að vakta ungmenni í Hong Kong og tilkynna þau til lögreglunnar ef tilefni þykir.

Á vikulegum blaðamannafundi sínum sagði Lam að íbúar Hong Kong hefðu í langan tíma orðið fyrir áhrifum rangra hugmynda.

Bretar skiluðu Hong Kong til Kínverja árið 1997. Það var gert gegn loforði um að réttindi og frelsi íbúa í Hong Kong yrðu áfram tryggð með hugmyndinni um „eitt land – tvö kerfi“.

Árið 2019 fóru fram umfangsmikil mótmæli í Hong Kong, sem voru að miklu leiti leidd af yngra fólki. Mótmælendur kröfðust aukins lýðræðis og réttinda en mótmælin voru brotin niður af mikilli hörku.

Í kjölfar þess skrifuðu ráðamenn í Kína umdeild öryggislög um Hong Kong sem samþykkt voru í fyrra. Samkvæmt þeim lögum voru alls konar aðgerðir sem beinast gegn ríkinu bannaðar í Hong Kong. Stjórnarandstæðingar hafa verið reknir af þingi Hong Kong og aðgerðasinnar hafa verið handteknir og dæmdir í fangelsi.

Þá hefur fjölmiðlum eins og Apple Daily verið lokað.

Sjá einnig: Lýðræðisdagblaði gert að hætta útgáfu og blaðamenn handteknir

Ráðamenn í Kína hafa sagt óvinveitt ríki hafa ýtt undir mótmæli og ofbeldi í Hong Kong og að það hafi ógnað þjóðaröryggi Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×