Johnson staðfesti þetta við þingmenn á breska þinginu í dag en á síðastliðnum tuttugu árum hafa 457 breskir hermenn dáið í Afganistan. Þetta ákvað hann þrátt fyrir að talíbanar í Afganistan hafi sótt í sig veðrið á undanförnum misserum. Fréttastofa Guardian greinir frá.
Bandaríkin hafa líka kallað herlið sitt heim og yfirgaf bandaríski herinn Bagram herstöðina í Afganistan snögglega fyrr í vikunni. Um 650 bandarískir hermenn munu þó verða eftir í Afganistan til að tryggja öryggi bandarískra embættismanna í landinu. Einhverjir breskir hermenn verða eftir til að starfa samhliða bandaríska herliðinu en ekki hefur verið tilkynnt hvað þeir verða margir.
NATO-ríki hafa þegar tilkynnt að til standi að kalla herliðið heim en Johnson staðfesti í dag að allar hersveitir muni snúa aftur heim. Hann sagðist ekki geta gefið nákvæmar tímasetningar fyrir heimförunum vegna öryggisástæðna en bætti við: „Ég get sagt þinginu það að flestir manna okkar hafa þegar yfirgefið landið.“
Talið er að Talíbanar hafi stjórn á um helmingi landssvæðis í Afganistan en Sir Nick Carter, yfirmaður herafla Bretlands, sagði í dag að hann vonist til þess að friðarviðræður milli afganskra stjórnvalda og Talíbana fari fram á endanum.
Breskar hersveitir hafa yfirgefið landið á sama tíma og bandarískar hersveitir, að tilskipan Joe Biden Bandaríkjaforseta, hafa snúið aftur heim. Breskir stjórnmálamenn, Johnson þar á meðal, hafa lýst yfir vilja til að vera áfram með herviðveru í Afganistan en talið er að þrýstingur Bidens um að yfirgefa landið hafi sett hersveitir NATO í bagalega stöðu, og hersveitir bandalagsins þurft að yfirgefa landið á sama tíma til að tryggja öryggi hermanna.