Íslenski boltinn

„Mér finnst dómararnir alveg mega stíga aðeins upp“

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Eiður Ben er aðstoðarþjálfari Vals.
Eiður Ben er aðstoðarþjálfari Vals. vísir/daníel

„Það er bara frábært að koma hérna og vinna. Þetta er erfitt lið að eiga við en við erum hæst ánægð með stigin þrjú,“ sagði Eiður Ben Eiríksson, annar þjálfari Vals, eftir 2-0 sigur Vals á Stjörnunni í Pepsi Max deild kvenna í kvöld.

„Dómgæslan hefur ekkert verið frábær í allt sumar. En ég ætla ekki að fara að tala þá eitthvað niður en auðvitað komu upp einhver atvik. Ég svosem sá ekki það sem einhverjir telja mögulega mark. Hugsanlega áttum við að fá víti þarna í seinni hálfleik. Mér finnst dómararnir alveg mega stíga aðeins upp.“

„Við förum í alla leiki til að vinna. Við þurfum að passa að fara ekki fram úr okkur, við erum stundum að hugsa of langt fram í tímann. Næsti leikur er á föstudaginn og núna kláruðum við þennan leik. Við erum á fínu róli núna, við erum að spila með nokkuð jafnar og flottar frammistöður. Við erum að klára leikina og gera nokkuð sannfærandi. Ég er bara mjög ánægður með liðið eins og það stendur í dag.“

Valur náði ekki að skapa sér færi fyrr en á 25. mínútu leiksins. Færi beggja liða voru ekki góð til að byrja með en þegar líða fór á seinni hálfleikinn þá stigu Valskonur upp.

„Mér fannst við alveg fulllengi að þreifa fyrir okkur og vera á hægu tempói. Við ætluðum að byrja á því að leyfa Stjörnunni aðeins að búa til leikinn því við vissum að ef við myndum fara of snemma fram þá myndu þær spila auðveldlega úr pressunni eins og þær hafa verið að gera.“

„Við vildum bíða aðeins og svo stigum við á þær þegar það fór að líða á seinni hálfleikinn. Mér fannst við kannski full hægar til að byrja með en við þurftum aðeins að fá að þreifa fyrir okkur. Það vantaði aðeins að fara betur í návígi og vinna seinni boltann og við ræddum það í hálfleik að við þyrftum að fara í að gera hlutina sem við vorum búin að undirbúa fyrir leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×