Enski boltinn

Segir að hamborgaraástin hafi komið í veg fyrir að Anderson yrði bestur í heimi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anderson varð fjórum sinnum Englandsmeistari með Manchester United og einu sinni Evrópumeistari.
Anderson varð fjórum sinnum Englandsmeistari með Manchester United og einu sinni Evrópumeistari. getty/Alex Livesey

Brasilíumaðurinn Rafael segir að landi sinn, Anderson, hefði getað orðið besti leikmaður heims ef ekki hefði verið fyrir ást hans á hamborgurum, sérstaklega McDonald's.

Anderson kom til Manchester United 2007 og var í stóru hlutverki fyrstu tvö tímabil sín hjá félaginu. Honum tókst hins vegar ekki að fylgja því eftir og ferill hans fjaraði út.

Rafael lék með Anderson hjá United og segir að landi sinn hafi ekki hugsað nógu vel um sig og hamborgaraástin hafi reynst honum dýr.

„Við vorum kannski í rútunni á leið í leiki þegar Anderson stóð upp og öskraði „McDonald's, McDonald's“ rifjaði Rafael upp.

„Gaurinn var brjálaður en ég elska hann. Þegar hann fékk nokkra leiki í röð gat hann spilað eins vel og hvaða leikmaður sem er. Hann meiddist oft og svo byrjuðu matarvenjurnar að hafa áhrif á hann. Það var engin tilviljun að hann spilaði best þegar hann spilaði mikið því þá gat hann ekki borðað eins mikið.“

Rafael segir að hugarfar Andersons hafi ekki verið nógu gott og það hafi orðið honum að falli.

„Ég vil segja eitt um Anderson, ef hann hefði verið atvinnumaður hefði hann getað verið besti leikmaður heims. Ég segi þetta í fullri alvöru. Hann elskaði lífið og var full slakur á því,“ sagði Rafael sem leikur nú með Istanbul Basaksehir í Tyrklandi.

Anderson yfirgaf United 2015 og lagði skóna á hilluna í fyrra eftir að hafa spilað í Tyrklandi síðustu ár ferilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×