Enski boltinn

Tímaspursmál hvenær Varane fer til United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Raphaël Varane er á förum frá Real Madrid eftir áratug hjá félaginu.
Raphaël Varane er á förum frá Real Madrid eftir áratug hjá félaginu. getty/Alex Caparros

Aðeins tímaspursmál er hvenær franski varnarmaðurinn Raphaël Varane gengur í raðir Manchester United frá Real Madrid.

Fótboltavéfréttin Fabrizio Romano greinir frá þessu á Twitter í dag. Hann segir að United og Real Madrid séu nálægt því að komast að samkomulagi og aðeins eigi eftir að hnýta nokkra lausa enda. Romano segir að Varane gangi í raðir United á næstu dögum eða klukkutímum.

Varane hefur leikið með Real Madrid undanfarin tíu ár en hann kom til spænska stórliðsins frá Lens 2011.

Franski landsliðsmaðurinn hefur tvisvar sinnum orðið Spánarmeistari og fjórum sinnum Evrópumeistari með Real Madrid. Hann hefur leikið 360 leiki fyrir félagið og skorað sautján mörk.

Varane, sem er 28 ára, varð heimsmeistari með franska landsliðinu í Rússlandi 2018. Hann lék alla fjóra leiki Frakklands á EM í sumar.

Á föstudaginn kynnti United enska landsliðsmanninn Jadon Sancho sem nýjan leikmann félagsins. United hefur einnig fengið markvörðinn Tom Heaton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×