Körfubolti

Haukarnir fá besta leikmann deildarinnar frá Hamri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Medina spilar áfram fyrir Máté Dalmay en núna hjá Haukum.
Jose Medina spilar áfram fyrir Máté Dalmay en núna hjá Haukum. Haukar Körfubolti

Haukar halda áfram að styrkja sig fyrir komandi tímabil í körfuboltanum og karlaliðið fékk heldur betur flottan liðstyrk í gær.

Körfuknattleiksdeild Hauka tilkynnti þá að hún hefði gert eins árs samning við spænska leikstjórnandann Jose Medina.

Hinn 28 ára gamli Medina mun því spila áfram á Íslandi en í vetur gerði hann flotta hluti með liði Hamars í Hveragerði. Eftir tímabilið var leikmaðurinn kjörinn besti leikmaður 1. deildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

Máté Dalmay er tekinn við sem þjálfari Hauka en hann þekkir Medina vel sem spilaði undir hans stjórn hjá Hamri.

Haukar féllu úr úrvalsdeildinni í vetur og spila því í 1. deildinni á komandi tímabili. Medina og félagar í Hamri urðu bæði í öðru sæti í deildarkeppninni og í úrslitakeppninni og komust því ekki upp í efstu deild.

Medina var með 23,5 stig, 10,8 stoðsendingar og 6,2 fráköst að meðaltali í deildarkeppninni en í úrslitakeppninni var hann með 20,3 stig, 12,2 stoðsendingar og 5,7 fráköst að meðaltali í leik.

Jose náði meðal annars leik þar sem hann var með 33 stig, 20 stoðsendingar og 10 fráköst en það kom á móti Selfossi í undanúrslitaeinvíginu. Hann átti líka 23 stoðsendinga leik í úrslitaeinvíginu á móti Vestra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×