Innlent

Bára ætlar í fram­boð fyrir Sósíal­ista­flokkinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Bára Halldórsdóttir, uppljóstrari og aktívisti.
Bára Halldórsdóttir, uppljóstrari og aktívisti. Vísir/vilhelm

Bára Halldórsdóttir, aðgerðarsinni og uppljóstrari, hyggst gefa kost á sér á lista Sósíalistaflokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Bára vakti mikla athygli árið 2018 þegar hún steig fram sem uppljóstrarinn á Klausturbar þar sem hún tók upp afdrifaríkar samræður þingmanna.

Bára segir í viðtali við Stundina að hún vilji nýta reynslu sína, frægð og velvilja í samfélaginu til að koma að breytingum fyrir fólk sem býr við bága stöðu. Býður hún sig fram sem fulltrúi fatlaðs og hinsegin fólks á þingi en hún hefur lengi barist fyrir bættum kjörum öryrkja, langveikra og hinsegin fólks.

Bára hefur unnið með Sósíalistum upp á síðkastið og telur mikilvægt að öryrkjar og langveikir fái sjálfir sæti við ákvarðanaborðið.

„Sósíalistaflokkurinn er þar sem hjartað slær, og þar brennur eldurinn bjartast í dag. Faraldurinn hefur afhjúpað víðtæka veikleika samfélagsins. Ég vil taka þátt í starfi sem byggir upp þær grunnstoðir sem auðvelda fólki eins og mér að vera manneskjur. Ég vil að raddir fólks sem svipar til mín fái málsvara á Alþingi,“ segir hún í í samtali við Stundina.

Reynsla hennar af Klaustursmálinu hafi kennt henni hvers hún er megnug eftir að hafa vanmetið sjálfa sig í mörg ár.

„Fyrir tilviljun fékk ég athygli í samfélaginu, fyrir að sitja á réttum bar við réttar aðstæður, og mér finnst það vera skylda mín að nýta þá athygli til að vera fulltrúi fatlaðs fólks, langveiks fólks og fátæks fólks.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×