Erlent

Átta hafa farist í gróður­eldum í Tyrk­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Minnst átta hafa farist í gróðureldunum sem brenna í Tyrklandi.
Minnst átta hafa farist í gróðureldunum sem brenna í Tyrklandi. Getty/Omer Evren Atalay

Átta hafa farist í gróðureldum sem hafa brunnið undanfarna fimm daga í suðurhluta Tyrklands. Tíu eru á sjúkrahúsi vegna eldanna.

Meira en hundrað eldar hafa kviknað í Tyrklandi undanfarna daga en slökkviliðum hefur tekist að ráða niðurlögum meiri hluta þeirra. Eldar brenna þó enn í kring um bæina Manavgat og Marmaris. Íbúar hafa verið hvattir til að yfirgefa heimili sín og ferðamönnum verið gert að yfirgefa hótel.

Hópi ferðamanna og starfsmanna hótels í bænum Bodrum var bjargað á báti þegar eldarnir fóru að nálgast bæinn. Enn brenna um sex eldar á suðurströnd landsins. Fréttastofa Reuters greinir frá.

Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín frá því á miðvikudag og hefur tyrkneskt slökkvilið fengið aðstoð liða frá Rússlandi, Úkraínu, Íran og Aserbaídsjan. Þá sendi Evrópusambandið þrjár flugvélar, útbúnar slökkvitækjum, til Tyrklands í gær.

Gróðureldar hafa brunnið víða í Suður-Evrópu undanfarnar vikur, til að mynda í Grikklandi þar sem slökkviliðsmenn hafa barist við gróðureldar í vesturhluta landsins. Fimmtán þurftu að leita heilbrigðisaðstoðar á sjúkrahúsum um helgina vegna öndunarörðuleika. Hitinn í Grikklandi hefur verið gríðarlegur undanfarna daga og náði 44 gráðum á mánudag og þriðjudag í síðustu viku.

Þá hafa gróðureldar brunnið á Sikiley undanfarnar vikur og sögðu slökkviliðsmenn á laugardag að þeir hefðu glímt við gróðurelda nærri bænum Catania í tvo sólarhringa. Íbúar í bænum hafi þurft að yfirgefa heimili sín og hefur flugvellinum á svæðinu verið lokað tímabundið vegna eldanna.


Tengdar fréttir

Gróðureldar brenna í Suður-Evrópu

Miklir gróðureldar brenna nú víða í Suður-Evrópu og hafa hvassir vindar og mikill hiti ekki hjálpað til í baráttunni gegn eldtungunum. Á sama tíma heyja ríki í norðurhluta Evrópu enn baráttu við úrhellisrigningar og flóð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×