Ríkismiðlar Norður-Kóreu hafa eftir veðurfræðingi að á undanförnum þremur dögum hafi rigning í hlutum landsins mælst meiri en 500 millimetrar. Þá sé búist við frekari rigningu í ágúst, samkvæmt frétt Reuters.
Óttast er hvað þessar rigningar og flóð muni hafa á uppskeru og fæðuframboð í Norður-Kóreu.
Kim Jong Un, einræðisherra landsins, lokaði landamærum Norður-Kóreu þegar faraldur nýju kórónuveirunnar hófst. Sú ákvörðun, viðskiptaþvinganir gegn ríkinu vegna eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlun og náttúruhamfarir hafa leitt til matvælaskorts og hungursneyðar.
Í júní sagði Kim opinberlega að Norður-Kórea væri í erfiðri stöðu og margt ylti á uppskeru þessa árs. Þá hafi ríkissjónvarp Norður-Kóreu ítrekað sýnt frá vinnu við að reisa varnargarða og laga sýki, brýr og önnur innviði sem ætlað er að koma í veg fyrir tjón vegna flóða.
Fréttaveitan segir að utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu hafi talað saman í síma í morgun og þeir hafi rætt mögulega neyðaraðstoð til Norður-Kóreu.
Hamfararigningar síðustu daga koma í kjölfar hitabylgju og þurrks fyrr í sumar. Í síðasta mánuði rigndi mjög lítið í Norður-Kóreu. Hitinn var svo mikill að samkvæmt frétt Washington Post voru íbúar varaðir við vökvatapi og ofhitnunar.