Enski boltinn

Klopp útilokar ekki að sækja fleiri leikmenn: „Ánægður með hópinn“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Klopp á hliðarlínunni í gær.
Klopp á hliðarlínunni í gær. vísir/Getty

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir ekki útilokað að liðið muni versla nýjan leikmann áður en lokað verður fyrir félagaskipti í haust.

Keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst um næstu helgi og eru liðin á lokametrunum í undirbúningi. Nokkrir lykilmenn Liverpool léku sinn síðasta æfingaleik fyrir mót í gær þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Athletic Bilbao en Liverpool á einnig æfingaleik í kvöld þegar liðið mætir Osasuna.

Klopp var spurður út í leikmannahóp liðsins eftir leikinn gegn Athletic í gær.

„Ég er mjög ánægður með leikmannahópinn en það þýðir ekki að við séum ekki að fylgjast með leikmannamarkaðnum.“

„En ef ekkert gerist þá er ég meira en ánægður með hópinn sem ég er með. Ég er ánægður með þá leikmenn sem ég hef,“ segir Klopp.

Liverpool átti alls ekki góða titilvörn á síðustu leiktíð en náði þó að innbyrða þriðja sæti deildarinnar.

Klopp hefur ekki farið mikinn á leikmannamarkaðnum í sumar og aðeins bætt franska varnarmanninum Ibrahim Konate við hóp sinn.

„Við höfum svo marga hluti sem fást ekki keyptir. Það er ekki hægt að kaupa pressuna okkar, andrúmsloftið sem við búum til á okkar heimavelli. Þú getur ekki keypt Anfield eða sönginn okkar,“ sagði Klopp og vísaði þá til You´ll never walk alone lagsins.

„Við erum með stóran hóp og það gæti eitthvað gerst áður en glugginn lokar en ég get ekkert sagt til um það á þessu augnabliki,“ sagði Klopp.

Liverpool mætir nýliðum Norwich í 1.umferð ensku úrvalsdeildarinnar næstkomandi laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×