Íslenski boltinn

Alfreð: Hún er hérna til að skora

Andri Gíslason skrifar
Alfreð Elías var svekktur með úrslitin í kvöld.
Alfreð Elías var svekktur með úrslitin í kvöld. vísir/hulda

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss var svekktur með úrslitin á móti Þrótti er liðin skildu jöfn, 2-2, í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. Hann er þó ánægður með frammistöðuna, sérstaklega hjá hinni bandarísku Brennu Lovera.

„Það er svekkjandi að fá jafntefli en við vorum bara ótrúlega góðar í þessum leik. Ég var ánægður með svörunina sem ég fékk frá leikmönnum. Ég er pínu svekktur en maður verður bara að virða stigið á móti mjög góðu liði Þróttar.“ segir Alfreð.

Selfyssingar komust yfir en fengu á sig jöfnunarmark rétt fyrir hálfleik.

„Það var klaufalegt að fá á okkur mark úr föstu leikatriði en það er bara eins og það er. Við héldum okkur við sama plan og mér fannst það bara ganga nokkuð vel upp. Þótt við höfum verið ferskari í fyrri hálfleik þá datt aðeins botninn úr þessu í þeim síðari en ég get ekki kvartað yfir leikmönnunum í dag.“

Brenna Lovera var frábær í liði Selfoss í dag og skoraði bæði mörk heimastúlkna.

„Brenna var mjög góð og skoraði góð mörk en aftur á móti erum við að gera henni auðvelt fyrir með því að vinna góða vinnu fyrir hana. Hún gerði þetta mjög vel en hún er hérna til þess að skora.“ segir Alfreð.

Selfoss mætir Fylki í næstu umferð og á Alfreð von á hörkuleik.

„Nú fáum við að anda aðeins, það fór mikil orka í þennan leik. Það eru einhverjir 8 dagar í næsta leik en við mætum Fylki sem er á góðri siglingu þannig við eigum von á hörkuleik þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×