Íslenski boltinn

FH-ingar geta í kvöld komist í átta liða úrslit bikarsins sjöunda árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Lennon skoraði þrennu á Skaganum fyrr í sumar.
Steven Lennon skoraði þrennu á Skaganum fyrr í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Fimm lið munu tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta í kvöld og bætast í hóp með Vestra og ÍR sem tryggði sig áfram í gærkvöldi.

Tveir Pepsi Max deildar slagir verða í kvöld en alls eru sjö Pepsi Max deildarlið í eldlínunni í leikjum kvöldsins.

Bikarfjörið byrjar með leik Pepsi Max deildarliðanna Keflavíkur og KA á Nettóvellinum í Keflavík klukkan 17.00 en hann er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Kvöldið endar síðan með leik Fylkis á móti Lengjudeildarliði Hauka en sá leikur hefst klukkan 20.15 og verður einnig sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Klukkan 18.00 eru síðan hinir þrír leikirnir þar sem HK tekur á móti KFS frá Vestmannaeyjum, Valur mætir Völsungi á Hlíðarenda og loks hinn Pepsi Max deildar slagur kvöldsins þegar ÍA fær FH í heimsókn á Norðurálsvöllinn á Akranesi.

FH-ingar hafa komist í átta liða úrslit bikarkeppninnar undanfarin sex ár og vinni þeir á Skaganum verða þeir þar í sjöunda árið í röð. FH datt út úr 32 liða úrslitum bikarsins sumarið 2014 en hefur frá 2015 alltaf komust í átta liða úrslitin og undanfarin fimm ár hefur Hafnarfjarðarliðið verið í undanúrslitum bikarsins.

Af liðunum sem eru að spila í kvöld geta FH, Valur og HK komist í átta liða úrslitin annað árið í röð. Valur og HK voru þar aftur á móti ekki sumarið 2019.

  • FH í bikarkeppninni undanfarin ár:
  • 2020 - Undanúrslit
  • 2019 - Silfurverðlaun
  • 2018 - Undanúrslit
  • 2017 - Silfurverðlaun
  • 2016 - Undanúrslit
  • 2015 - Átta liða úrslit
  • 2014 - 32 liða úrslit

Mjólkurbikarinn er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Mjólkurbikarinn er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×