Enski boltinn

Erfitt að toppa þetta í „keppninni“ um klúður tímabilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Macauley Bonne skilur örugglega ekki sjálfur hvernig honum tókst að klúðra þessu.
Macauley Bonne skilur örugglega ekki sjálfur hvernig honum tókst að klúðra þessu. Getty/Hannah Fountain

Macauley Bonne svaf ekki vel í nótt og mun örugglega ekki sofa vel út mánuðinn eftir klúður sitt í tapi Ipswich Town í ensku C-deildinni.

Bonne bauð upp á klúður tímabilsins til þessa í 2-1 tapi á útivelli á móti Cheltenham Town.

Ipswich komst í 1-0 í leiknum en fór stigalaust heim ekki síst þökk sé þessu klúðri sem við sjáum hér fyrir neðan.



Bonne gerði vissulega vel í að lyfta boltanum yfir markvörðinn sem kom á móti honum en þegar kom að því að ýta boltanum yfir marklínuna þá vorum honum algjörlega mislagðir fætur.

Hann hitti ekki boltann og þótt að hann hefði aðeins meiri tíma þá endaði boltinn á endanum í utanverðri stönginni og fór þaðan aftur fyrir endamörk.

Eitt er víst að það verður örugglega erfitt að toppa þetta í baráttunni um klúður tímabilsins. Við höfum aðeins lokið nokkrum leikjum en þetta er nánast ósigrandi klúður þegar kemur að því að klikka fyrir galopnu marki.

Macauley Bonne er 25 ára framherji sem skoraði í 2-2 jafntefli í fyrsta leik á móti Morecambe en hefur ekki skorað í síðustu tveimur leikjum sem töpuðust báðir.

Bonne er í láni hjá Ipswich frá Queens Park Rangers. Hann skoraði bara 3 mörk í 34 leikjum í ensku b-deildinni á síðustu leiktíð og þessi klaufaskapur er ekki að gera mikið fyrir sjálfstraustið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×