Íslenski boltinn

Alfreð hættir á Selfossi

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Elías Jóhannsson stýrði Selfossi til fyrsta stóra titilsins í knattspyrnusögu félagsins, þegar liðið varð bikarmeistari árið 2019.
Alfreð Elías Jóhannsson stýrði Selfossi til fyrsta stóra titilsins í knattspyrnusögu félagsins, þegar liðið varð bikarmeistari árið 2019. vísir/daníel

Alfreð Elías Jóhannsson hættir sem þjálfari kvennaliðs Selfoss í fótbolta í haust. Hann greindi frá þessu sjálfur á Facebook.

Alfreð hefur náð frábærum árangri sem þjálfari Selfyssinga frá því að hann tók við liðinu fyrir tímabilið 2017. Hann kom því upp úr 1. deild í fyrstu tilraun og stýrði liðinu til síns fyrsta bikarmeistaratitils árið 2019.

Eftir 4-3 sigurinn gegn Fylki í Árbæ í gærkvöld er Selfoss jafn Þrótti að stigum í 3.-4. sæti Pepsi Max-deildarinnar, með 22 stig. Selfoss á eftir að spila þrjá leiki áður en tímabilinu lýkur og Alfreð kveður.

Á vef Sunnlenska er haft eftir Alfreð af Facebook-síðu hans: „Ég hef ákveðið að það sé tímabært að breyta til í haust. Ástæðan er einföld. Eftir fimm góð ár er það einfaldlega tímabært. Samstarf mitt við liðið, aðstoðarfólk og stjórn hefur verið með miklum ágætum. Það er með miklu þakklæti í huga sem ég kveð gott lið og góða samstarfsmenn síðar í haust. Lið sem efalaust mun láta vel til sín taka á næstu árum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×