Erlent

Fékk bandaríska hermenn á tal við sig áður en hann sprengdi sig í loft upp

Heimir Már Pétursson skrifar
Enn ríkir mikil ringulreið á flugvellinum í Kabúl, þar sem þúsundir hafa freistað þess að komast úr landi.
Enn ríkir mikil ringulreið á flugvellinum í Kabúl, þar sem þúsundir hafa freistað þess að komast úr landi. epa/Akhter Gulfam

Rúmlega 90 Afganir og 13 liðsmenn Bandaríkjahers féllu í tveimur sprengjuárásum við flugvöllinn í Kabúl, höfuðborg Afganistan, í gærkvöldi. Á annað hundrað manns særðust í sprengingunum.

Fyrsti sprengdi maður sig upp í mannmergð utan við svo kallað Abbey-hlið að flugvellinum og skömmu síðar sprengdi annar sig upp við hótel sem setulið Atlantshafsbandalagsins notar til að meta fólk áður en það fær að fara inn á flugvöllinn og yfirgefa landið. 

Joe Biden forseti Bandaríkjanna var harðorður í yfirlýsingum eftir árásina og sagði að þeir sem væru ábyrgir yrðu eltir uppi og fengju að gjalda fyrir morðin. 

Áður en sprengjurnar tvær sprungu skutu árásarmenn að fjöldanum til að stugga við honum. 

Vitni segja fyrri sprengjumanninn ekki hafa sprengt sig í loft upp fyrr en hann hafði vakið athygli bandarískra hermanna á sér og þeir gengið upp að honum. 

Hryðjuverkasamtök sem kenna sig við samtökin Íslamska ríkið og kalla sig ISIS-K eru talin bera ábyrgð á árásunum. Talsmenn Bandaríkjahers sögðu í gærkvöldi að undanfarna daga hefðu leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna og Talibanar skipst á upplýsingum og því hafi verið varað við árás sem þessari fyrir nokkrum dögum. 

Nú er búið að flytja rúmlega hundrað þúsund manns frá Kabúl og skipulögðum flutningum undir vernd NATO hersveita, sem helst eru skipaðar Bandaríkjamönnum, fer að ljúka. 

Allur herafli Bandaríkjamanna á að vera farinn hinn 31. ágúst en sagt er að það taki um þrjá daga að flytja heraflann á brott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×