Innlent

Karlvígið í Bjarnareyjarfélaginu í Eyjum fallið

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kristín elskar það að fá að vinna út í Bjarnarey með körlunum í félaginu. Hún segist vera sérstaklega góð á penslinum.
Kristín elskar það að fá að vinna út í Bjarnarey með körlunum í félaginu. Hún segist vera sérstaklega góð á penslinum. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Karlvígið í Bjarnareyjarfélaginu í Vestmannaeyjum er nú endanlega fallið eftir að fyrsta konan var tekin formlega inn í félagið. Konan segist vilja gera strákahluti.

Kristín Bernharðsdóttir býr í fallega húsi við Hásteinsveg í Vestmannaeyjum, sem fjölskyldan hefur verið að gera upp síðustu ár en þau búa í Reykjavík en nýta hvert tækifæri til að koma til Eyja og vera í húsinu sínu. Kristín er ekki bara þekkt fyrir að hafa verið kjörin fegurðardrottning Íslands árið 1979 því hún er líka fyrsta konan, sem hefur verið tekin inn í Bjarnareyjarfélagið í Vestmannaeyjum og þá er nú mikið sagt.

„Ég meina, einhvers staðar verða konur líka fá að vera. Ég hef gaman af því að mála, ég hef gaman af því að bera á, ég hef gaman af því að gera strákahluti, en það eru samt ekki strákahlutir,“ segir Kristín.

En heldur hún að andinn muni breytast eitthvað í félaginu með tilkomu þinni?

„Hann hefur ekki breyst hingað til, ekkert breyst, ég er bara hluti af strákunum, það er bara Stína og strákarnir.“

Gárungarnir tala um að Bjarnareyarfélagið sé að breytast í kvenfélag, er eitthvað til í því?

„Það verður að fá að vera smá kýtingur milli eyja og það er svona partur af því að hafa gaman,“ segir Kristín og hlær.

Kristín segir að tilgangur félagsins sé fyrst og fremst að viðhalda húsinu í eynni og passa upp á eyjuna og ekki síst að hafa gaman saman.

Kristín er nú að hugsa um að flytja alfarið til Vestmannaeyja, þá aðallega út af fólkinu sem þar býr.

„Það er svo glatt, hérna hjálpast allir að og það gerir nálægðin, nálægðin fær mig til að fara til nágrannans og spyrja, get ég hjálpað. Mér finnst gott að vera hérna, mér finnst gaman að vera hérna og að geta farið út í eyju og að geta farið á sjóinn, já, mér finnst einhvern veginn, já ég er tilbúin að koma hér og vera hér alveg og eiga svo bara athvarf í bænum,“ segir Kristín.

Kristín elskar það að fá að vinna út í Bjarnarey með körlunum í félaginu. Hún segist vera sérstaklega góð á penslinum.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×