Íslenski boltinn

Sæti í Pepsi Max-deildinni undir í Mosfellsbænum í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eyjakonan Sigríður Lára Garðarsdóttir er í stóru hlutverki í liði FH.
Eyjakonan Sigríður Lára Garðarsdóttir er í stóru hlutverki í liði FH. vísir/hag

Afturelding og FH mætast í hreinum úrslitaleik um það hvort liðið fylgir KR upp í Pepsi Max-deild kvenna á næsta ári í kvöld.

Mikið er undir í lokaumferð Lengjudeildarinnar í kvöld. Helmingur liðanna á enn tölfræðilega möguleika á falli og þá verður sæti í Pepsi Max-deildinni undir í Mosfellsbænum.

Afturelding er í 2. sæti deildarinnar með 37 stig, einu stigi á undan FH. Mosfellingum nægir því jafntefli í leiknum í kvöld til að komast upp.

FH-ingum hefur fatast flugið að undanförnu en í síðustu tveimur leikjum hafa þeir aðeins fengið eitt stig og átta mörk á sig.

Í sautjándu og næstsíðustu umferðinni tapaði FH fyrir Víkingi, 2-4. Á meðan sigraði Afturelding ÍA, 0-3, og komst þar með upp fyrir FH í 2. sætið og í bílstjórasætið fyrir lokaumferðina.

FH féll úr Pepsi Max-deildinni í fyrra en Afturelding hefur ekki leikið í efstu deild síðan 2015.

Staðan fyrir lokaumferðina í Lengjudeild kvenna.

Fimm lið geta enn fallið þótt að í tilfelli Grindavíkur þurfi rosalega mikið til að það gerist. Grindvíkingar eru í 6. sæti deildarinnar með sautján stig, þremur stigum frá fallsæti. Þá er Grindavík með miklu betri markatölu en neðstu fjögur liðin.

HK og Grótta eru með sextán stig í 7. og 8. sæti en Augnablik og ÍA eru í tveimur neðstu sætunum með fjórtán stig hvor.

Kópavogsliðin mætast í Kórnum og Augnablik verður að vinna til að halda sér uppi. Sömu sögu er að segja af ÍA sem sækir Hauka heim. Grótta má svo ekki misstíga sig gegn KR á heimavelli.

Allir leikirnir í lokaumferð Lengjudeildarinnar hefjast klukkan 19:15 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×