Ragnar Axelsson ljósmyndari Vísis kynntist Steve Lewis í ferð um Hornstrandir og fékk að heyra hvað það var sem heillar hann svona mikið. Steve er búinn að vera á ferð og flugi um Ísland í allt sumar. RAX myndaði þennan einstaka karakter bæði á Hornströndum og á heimili hans á Siglufirði.
Jón Grétar Gissurarson, klippari og framleiðandi RAX Augnablik, gerði þetta myndband með þeim myndum en þær má einnig finna hér fyrir neðan.
Steve er Breti og er mikill ævintýramaður. Hann klífur fjöll og jökla, klifrar í klettum, stundar jaðaríþróttir og svona mætti lengi telja.


„Það er magnað að sigla út frá Ísafirði. Fjöllin á sjóndeildarhringnum virka mjög smá og lítilfjörleg.“


„Opinberunin gerist hægt. Þú sérð ekki Hornbjargið strax en Hornstrandirnar lokka mann að sér.Maður sér risavaxna drangana gnæfa upp úr sjónum og ímyndar sér strax að þetta séu villtar slóðir. Þar sem fuglar og refir og sjávarlífríkið þrífst án nokkurra snertinga við mannskepnuna.“



„Það er ómetanlegt að vera manneskja í þessu umhverfi. Þetta snýst ekki um að klífa hæsta tindinn eða finna afskekktasta staðinn. Þetta snýst um tímann yfir höfuð. Sitja og njóta aðgerðarleysisins, borða ber og lifa af landinu,“ segir Steve sem er mikill náttúruunnandi.

„Manni er aðeins úthlutað örskömmum tíma til þess að njóta þessara óbyggða.“

„Það er gaman að stökkva í sjóinn. Það veitir manni ögn meira frelsi en í hversdagslífinu.“


„Ég hef aldrei prófað strandbretti áður en ákvað að kýla bara á það, þetta yrði bara spennandi.“

„Ég tapaði einstaklingseðlinu á þessum stað. Ég er uppalin í þéttbýli á Englandi, örskammt frá London. Svona staðir breyttu algjörlega sýn minni á hvað ég vildi gera með líf mitt.“


Steve er fæddur í Weston Turville á Englandi en býr á Siglufirði í dag ásamt eiginkonu sinni Erlu Jóhannsdóttur og syni þeirra Elíasi Ara.
„Ég hef fengið að kanna víðfeðmi norsku skóganna og heimsækja Svalbarða. Ég er líklega sá eini sem flutt hefur suður til Siglufjarðar. “


Steve er með kvikmyndaframleiðslufyrirtækið The Empire og hefur starfað fyrir fyrirtæki eins og BBC, Nike, Nicon, Oakley, Red Bull, Audi svo fáein séu nefnd.
Steve er einstaklega fær í kvikmyndagerð og drónakvikmyndatökum og myndaði meðal annars fyrir Chris Burkhard myndina A line In The Sand, sem við höfum áður fjallað um hér á Vísi. Var hann einnig einn framleiðandi myndarinnar.

Steve og Erla kynntust í Skaftafelli þar sem hann starfaði sem jöklaleiðsögumaður og bjuggu meðal annars saman á Svalbarða áður en þau settust að á Siglufirði.
„Ég hef alltaf leitað uppi svona afskekkta og ósnortna staði. Ekki til að sigrast á einhverju heldur til að upplifa umhverfið.“



„Ég hef alltaf litið á þetta sem jákvæðan hlut, mjög ávanabindandi. Ég veit líka að þegar þessu ævintýri lýkur bíða mín fleiri.“
