Formúla 1

Lewis Hamilton segist vera heppinn að vera enn á lífi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lewis Hamilton hefur orðið sjö sinnum heimsmeistari í formúlu eitt en á þessari mynd má sjá hversu litlu munaði þegar hann lenti undir bíl Max Verstappen.
Lewis Hamilton hefur orðið sjö sinnum heimsmeistari í formúlu eitt en á þessari mynd má sjá hversu litlu munaði þegar hann lenti undir bíl Max Verstappen. EPA-EFE/LARS BARON

Formúlukappinn Lewis Hamilton segist vera heppinn að vera enn meðal okkar eftir árekstur bíla hans og aðalkeppinautarins Max Verstappen í formúlu eitt kappakstrinum á Monza brautinni um helgina.

Hamilton og Verstappen eru í hörkukeppni um heimsmeistaratitilinn en hafa verið að lenda ítrekað í árekstrum sín á milli að undanförnu og svo fór einnig í ítalska kappakstrinum um helgina.

Verstappen keyrði þá aftan á bíl Hamilton og báðir voru úr leik. Verstappen heldur því áfram fimm stiga forystu í baráttunni um sigurinn í formúlu eitt í ár.

Hamilton þakkaði varnarbauginum í kringum höfuð ökumannsins fyrir það að ekki fór mun verr í árekstrinum.

Sjöfaldi heimsmeistarinn var í miklu áfalli eftir keppnina enda gerði hann sér vel grein fyrir því hversu litlu munaði.

„Ég var mjög heppinn í dag. Ég þakka guði fyrir verndarbauginn sem bjargaði mér, bjargaði hálsinum mínum,“ sagði Lewis Hamilton eftir keppnina en breska ríkisútvarpið segir frá og allir helstu fjölmiðlar í Bretlandi slógu þessu sláandi viðtali líka upp á forsíðum sínum í morgun.

„Ég er svo þakklátur fyrir það að vera enn á lífi. Það var mikil blessun fyrir mig að það var einhver sem vakti yfir mér,“ sagði Hamilton.

„Ég hef aldrei lent í því áður að fá bíl í höfuðið áður og þetta var mikið sjokk fyrir mig,“ sagði Hamilton.

„Við erum vissulega að taka áhættu en það er fyrst þegar þú lendir í einhverju svona sem þú fyllilega áttar þig á því hversu hættan er mikil og hversu brothætt við erum,“ sagði Hamilton.

„Þegar við skoðum myndir af árekstrinum þá er höfuð mitt frekar framarlega í ökumannsklefanum,“ sagði Hamilton.

Hamilton var ekki hrifinn af þessum varnarbaugi í fyrstu en var búinn að breyta um skoðun þegar hann varð skylda fyrir þremur árum síðan. Hann gæti ekki verið sáttari við hann í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×