Viðskipti innlent

Af­koma hins opin­bera ekki verri síðan 2008

Atli Ísleifsson skrifar
Skattar á tekjur og hagnað er stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði hann 43,9 prósent af heildartekjum hins opinbera á árinu 2020.
Skattar á tekjur og hagnað er stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði hann 43,9 prósent af heildartekjum hins opinbera á árinu 2020. Vísir/Vilhelm

Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 254 milljarða króna árið 2020, eða sem nemur 8,6 prósent af vergri landsframleiðslu ársins. Hefur hún ekki verið verri síðan 2008. Faraldur kórónuveirunnar hefur haft mikil áhrif á tekjur og gjöld hins opinbera.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hagstofunnar. Þar segir að til samanburðar hafi afkoman verið neikvæð um 46,4 milljarða króna árið 2019, eða 1,5 prósent af VLF.

„Afkoma hins opinbera hefur ekki verið verri síðan 2008 en kórónuveirufaraldurinn (COVID-19) hefur haft umtalsverð áhrif á tekjur og gjöld hins opinbera. Á verðlagi hvers árs drógust tekjur hins opinbera saman um 42,3 milljarða frá fyrra ári, eða um 3,3%, meðan útgjöld hins opinbera jukust um 165,4 milljarða króna, eða 12,5%.

Hafa þarf í huga við samanburð á fjárhæðum í hlutfalli af VLF að landsframleiðsla dróst saman að raungildi um 6,5% á árinu 2020.

Tekjur hins opinbera námu 1.231,6 milljörðum króna árið 2020, eða sem nemur 41,9% af VLF. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.273,9 milljarðar króna árið 2019, eða sem nemur 41,8% af landsframleiðslu þess árs.

Heildartekjur ríkissjóðs drógust saman um 7% árið 2020 samanborið við fyrra ár og námu alls 867,1 milljarði króna. Á sama tíma jukust tekjur sveitarfélaga um 5,4% og námu alls 404,8 milljörðum króna. Heildartekjur almannatrygginga jukust mest eða um 23,7% og námu alls 358,1 milljarði króna á árinu 2020. Almannatryggingar eru fjármagnaðar með tilfærslum frá ríkissjóði,“ segir í fréttinni.

Skattar stærsti tekjuliðurinn

Skattar á tekjur og hagnað er stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði hann 43,9 prósent af heildartekjum hins opinbera á árinu 2020. Alls hafi tekjur hins opinbera af tekjuliðnum numið 540,9 milljörðum króna á árinu 2020 og aukist um tvö prósent frá fyrra ári.

„Tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu drógust saman um 3,3% milli ára. Skattar á vöru og þjónustu námu 333,4 milljörðum króna á árinu eða sem nemur 27,1% af heildartekjum hins opinbera. Í heildina var lítil breyting frá 2019 á skatttekjum hins opinbera.

Útgjöld hins opinbera námu 1.485,6 milljörðum króna árið 2020 og jukust þau um 12,5% milli ára. Útgjöld ríkissjóðs jukust um 14,3% milli ára, útgjöld sveitarfélaga um 7,3% en mest jukust þó útgjöld almannatrygginga eða um 22,3%,“ segir á vef Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×