Innlent

Einungis um annar hver kjósandi kynnt sér frambjóðendur að ráði

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Um 42% aðspurðra í nýrri Maskínukönnun segjast hafa kynnt sér frambjóðendur illa eða mjög illa 
Um 42% aðspurðra í nýrri Maskínukönnun segjast hafa kynnt sér frambjóðendur illa eða mjög illa  Mynd/vísir

Nú þegar um vika er í kosningar hefur um annar hver kjósandi varla kynnt sér frambjóðendur samkvæmt nýrri Maskínukönnun. Þeir sem hyggjast kjósa Samfylkinguna telja sig hafa kynnt sér frambjóðendur best.

Yfir þrjú þúsund manns tóku þátt í könnuninni og fengu spurninguna „hversu vel eða illa hefur þú kynnt þér frambjóðendur í þínu kjördæmi?“

Hlutfallslega fæstir, eða um tuttugu og átta prósent segjast hafa kynnt sér frambjóðendur vel, og þar af hafa einungis tæplega níu prósent kynnt sér þá mjög vel. Tæplega þrjátíu prósent sögðust hafa gert það í meðallagi, en flestir eða ríflega 42 prósent segjast illa hafa kynnt sér frambjóðendur.

Konur hafa frekar kynnt sér málið en karlar og þegar horft er til landshluta hafa íbúar á Vesturlandi og Vestfjörðum síst kynnt sér frambjóðendur. Þá hafa tekjulægri kynnt sér frambjóðendur betur en þeir tekjuhærri og þeir tekjuhæstu, sem eru með mánaðarlaun yfir 1,2 millónum hafa sinnt því verst.

Þegr rýnt er í könnunina eftir flokkalínum er ljóst að þeir sem hyggjast kjósa Samfylkinguna telja sig hafa kynnt sér frambjóðendur lang best. Yfir fjórðungur þeirra segjast hafa kynnt sér frambjóðendur mjög vel og miklu munar á þeim sem koma þar á eftir, eða þeim sem hyggjast kjósa Miðflokkinn. Um fjórtán prósent þeirra segjast hafa kynnt sér frambjóðendur mjög vel.

Þeir sem hyggjast kjósa Sósíalista og Viðreisn hafa síst kynnt sér listana, og segjast um 45 prósent þeirra hafa kynnt sér þá fremur eða mjög illa.

Í grafinu hér að neðan má skoða hvernig kjósendur hafa kynnt sér frambjóðendur flokkanna sem þeir hyggjast kjósa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×