Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri Grænna, Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata mættust í Pallborðinu í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi.
Fáir búa yfir betri innsýn en Steingrímur sem er reynslumesti þingmaður Alþingis og hefur setið á þingi frá árinu 1983 eða í þrjátíu og átta ár. Af mörgu er af taka á stjórnmálaferlinum þar sem hann hefur meðal annars gegnt embætti fjármálaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og nú síðast forseta Alþingis.
Sigríður Á Andersen á að baki stormasamt kjörtímabil sem hún hóf sem dómsmálaráðherra en lauk sem almennur þingmaður eftir að hafa sagt af sér í kjölfar Landsréttarmálsins árið 2019. Hún stefndi á áframhaldandi þingsetu en lenti í áttunda sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og situr nú í heiðurssæti flokksins í Reykjavík Norður – með engan möguleika á þingsæti.

Jón Þór Ólafsson náði fyrst kjöri á Alþingi árið 2013 þegar Píratar buðu fram í fyrsta sinn. Hann hætti á þingi árið 2015 en var kjörinn á ný ári síðar. Í upphafi ársins ákvað Jón Þór í annað sinn að kveðja stjórnmálin og gaf því ekki kost á sér í prófkjöri flokksins að þessu sinni. Hann hefur verið formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis síðan í fyrra.