Formúla 1

Hundraðasti sigur Hamilton í hádramatískum Rússlandskappakstri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lewis Hamilton kemur í mark í Rússlandi við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna.
Lewis Hamilton kemur í mark í Rússlandi við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna. Lars Baron - Formula 1/Formula 1 via Getty Images

Breski ökuþórinn Lewis Hamilton vann sinn hundraðasta sigur á ferlinum þegar að keppt var í formúlu 1 í Rússlandi í dag. Lando Norris var fremstur lengst af, en rigning á lokahringjunum varð honum að falli.

Norris var á ráspól í fyrsta skipti á ferlinum þegar ræst var í Sochi í Rússlandi í dag. Hamilton var fjórði og hans helsti keppinautur um heimsmeistaratitilinn, Max Verstappen, tók út refsingu og ræsti aftastur.

Hamilton fór ekki nógu vel af stað og féll niður í sjöunda sæti í upphafi keppni. Carlos Sainz á Ferrrari tók forystuna af Lando Norris, en Norris kom sér fljótlega aftur í fremsta sæti.

Breski heimsmeistarinn vann upp sæti hægt og bítandi, og á sama tíma vann Verstappen sig hratt upp listann.

Þegar um fimm hingir voru eftir var Norris fremstur, Hamilton annar og Verstappen kominn í þriðja og seinasta verðlaunasætið. Þegar þarna var komið við sögu fór að rigna, og liðin þurftu því að taka snögga ákvörðun um það hvort að skynsamlegt væri að fara inn á þjónustusvæði til að setja regndekkin undir, eða að halda áfram á þeim dekkjum sem þeir voru á og vona það besta.

Hamilton og Verstappen skiptu um dekk á meðan að Norris hélt ótrauður áfram. Það reyndust þó vera dýrkeypt mistök fyrir Norris, en á næstu mínútum bætti mikið í rigningu og hann réð ekkert við bílinn.

Verstappen og Hamilton sóttu hratt að Norris og fóru að lokum nokkuð auðveldlega fram úr honum. Lewis Hamilton kom fyrstur í mark, en þetta var hundraðasti sigur hans á ferlinum í formúlu 1. Hann er jafnframt fyristi ökumaðurinn í sögu formúlu 1 til að vinna hundrað keppnir.

Með sigrinum tekur hann forystuna í stigakeppni ökuþóra og er nú tveimur stigum fyrir ofan Max Vertappen sem kom annar í mark. Norris, sem sá í hyllingum sinn fyrsta sigur á ferlinum, féll alla leið niður í sjöunda sæti, en það var Carlos Sainz sem að hrifsaði til sín þriðja sætið og komst því á verðlaunapall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×