Erlent

Gríðar­háar niður­greiðslur til jarð­efna­elds­neytis­iðnaðarins

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Sérfræðingar AGS segja að með því að láta jarðefnaeldsneytið kosta það sem það ætti í raun að kosta myndi útblásturinn minnka um þriðjung.
Sérfræðingar AGS segja að með því að láta jarðefnaeldsneytið kosta það sem það ætti í raun að kosta myndi útblásturinn minnka um þriðjung. Getty

Jarðefnaeldsneytisiðnaður heimsins fær um ellefu milljónir Bandaríkjadala í niðurgreiðslur frá ríkjum heimsins á hverri einustu mínútu allan ársins hring.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Þar segir að á síðasta ári hafi kola-, olíu- og gasframleiðsla fengið 5,9 billjónir dollara í niðurgreiðslur. Ekkert ríki í heiminum lætur eldsneytið kosta það sem það ætti að kosta miðað við framleiðslukostnað og umhverfisáhrifin sem slíkt eldsneyti veldur, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian um málið.

Skýrsluhöfundar segja að með þessum niðurgreiðslum séu ríki heimsins aðeins að hella olíu á eldinn, í orðsins fyllstu merkinu, þegar kemur að loftslagsbreytingum á jörðinni.

Þetta gerist á sama tíma og þjóðir segjast keppast við að draga úr losun og almenningur er hvattur til að nýta sér grænni kosti.

Hreinar og beinar niðurgreiðslur eru átta prósent af heildarupphæðinni sem AGS hefur tekið saman, en skattaívilnanir nema sex prósentum. Obbinn af upphæðinni skýrist hins vegar af því að ríkjunum hefur láðst að láta mengandi iðnað borga fyrir dauðsföll og heilsutjón sem hlýst af útblæstrinum og þá þurfa fyrirtækin ekki heldur að standa straum af kostnaði sem hlýnun jarðar veldur mannkyninu.

Sérfræðingar AGS segja að með því að láta jarðefnaeldsneytið kosta það sem það ætti í raun að kosta myndi útblásturinn minnka um þriðjung. Það yrði stórt skref í átt að því að ná loftslagsmarkmiðum þjóða heimsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×