Erlent

Fundu fjölda nasistamuna og vopna í eigu barnaníðings í Brasilíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Lögreglan í Rio De Janeiro í Brasilíu fann í vikunni fjölmarga muni frá tíma Nasista í Þýskalandi, vopn og skotfæri á heimili 58 ára manns sem grunaður er um barnaníð. Lögreglan gerði atlögu að heimili mannsins eftir að nágrannar hans sökuðu hann um að nauðga tólf ára syni þeirra.

Maðurinn hafði einnig verið sakaður um að brjóta á fleiri börnum.

Þegar lögregluþjóna bar að garði fundur þeir rúmlega þúsund nasistamuni á heimilinu. Þar á meðal búninga, málverk, fána, orður og myndir af Adolf Hitler. Einnig fundust byssur úr seinni heimsstyrjöldinni og skotfæri.

BBC segir manninn hafa haldið því fram að safnið sé um 3,5 milljóna dala virði. Lauslega reiknað samsvarar það rúmum 450 milljónum króna.

Rannsóknarlögmaðurinn sem fer með málið gegn manninum sagði við Reuters að maðurinn væri snjall og vel máli farinn. Hins vegar afneitaði hann Helförinni, væri hommahatari, barnaníðingur og sagðist „veiða homma“.

„Ég er ekki læknir, en fyrir mér virðist hann brjálaður geðsjúklingur,“ sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Luis Armond.

Armond sagði einnig að maðurinn kæmi úr auðugri fjölskyldu og hefði líklegast notað mikinn arf til að byggja upp Nasista-safn sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×