Stjórnvöld í Taívan voru ekki lengi að svara og hafa nú kallað eftir því að kínversk stjórnvöld hætti þessum þvingunum. Það sé aðeins taívanska þjóðin sem geti tekið ákvörðun um eigin framtíð. Fréttastofa Reuters greinir frá.
Deilur milli Alþýðulýðveldisins og eyríkisins, sem Kína hefur gert tilkall til, hafa náð nýjum hæðum undanfarna viku sem valdið hefur alþjóðasamfélaginu miklu hugarangri. Greint var frá því í gær að kínversk stjórnvöld hafi kallað eftir því að Bandaríkin slíti hernaðarsamband sitt við Taívan eftir að það var opinberað að bandaríski herinn hafi verið þar undanfarið ár og því haldið fram að hann þjálfi taívanska herinn.
Xi var beinskeyttur í ræðu sinni í kínverska þinghúsinu í Peking, þar sem verið var að halda upp á 110 ára afmæli byltingarinnar sem kollvarpaði síðasta kínverska keisaradæminu. Þar sagði hann meðal annars að kínverska þjóðin ætti þá „mögnuðu hefð“ að mótmæla aðskilnaðarstefnu.
„Sjálfstæðisaðskilnaðarstefna Taívan er stærsta fyrirstaða þess að móðurlandið sameinist að nýju og er alvarlegasta falda ógnin við endurnýjun þjóðarinnar,“ sagði Xi í ræðu sinni.
Friðsæl sameingin væri best fyrir taívönsku þjóðina en Kína myndi vernda fullveldi sitt og sameiningu.
„Enginn ætti að vanmeta staðfestur, vilja og getu kínversku þjóðarinnar til að vernda fullveldi ríkisins og sameiningu þess,“ sagði Xi. „Þetta sögulega verkefni að ljúka sameiningu móðurlandsins verður að klára og mun vera klárað.“
Xi hefur oft verið harðorðari í ræðu sinni um Taívan. Hann sagði til að mynda í júlí, síðustu opinberu ræðu sinni þar sem hann minntist á Taívan, að Kína myndi „kremja“ allar tilraunir ríkisins um formlegt sjálfstæði. Þá hótaði hann árið 2019 að beinu valdi yrði beitt gegn eyríkinu til að sameina það Kína.