Spennan milli ríkjanna hefur aukist mjög að undanförnu og óttast ráðamenn í Taívan mögulega innrás frá Kína.
Umræddar æfingar fólu í sér að nota báta til að lenda svokölluðum árásarherdeildum, sprengjusérfræðingum og öðrum með bátum. Hermennirnir léku svo eftir árás á ströndina í Fujian-héraði.
Í frétt Reuters segir að möguleg innrás Kína í Taívan myndi að mestu koma frá Fujian-héraði því það sé sá hluti meginlandsins sem er næstur eyríkinu.
Opinbert dagblað hersins birti myndband á samfélagsmiðlinum Weibo sem sýndi æfingarnar. Svo virðist sem tiltölulega fáir hermenn hafi tekið þátt i æfingunum.
Heita því að ná völdum í Taívan
Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa heitið því að ná völdum í Taívan, með valdi ef nauðsynlegt sé.
Xi Jinping, forseti Kína, hefur sagt það „óhjákvæmilegt“ að Taívan verði hluti af Kína. Um síðustu helgi sagðist hann vonast til þess að sameiningin takist án þess að beita þurfi valdi.
Sjá einnig: Heitir því að Taívan verði sameinað Kína á ný
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.
Taívan hefur staðið frammi fyrir mögulegri innrás frá Kína í áratugi. Undanfarin ár hafa þó orðið mikilvægar breytingar sitthvoru megin við Taívansund.
Samhliða því að sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan, hefur geta herafla ríkisins dregist saman. Um þrjár milljónir manna eru í varalið herafla Taívans en meirihluti þeirra segist litla sem enga þjálfun hafa fengið.
Í Kína hefur geta hersins aukist til muna með mikilli nútímavæðingu, þjálfun og miklum fjárútlátum til varnarmála.
Ráðamenn í Taívan og í Bandaríkjunum hafa að undanförnu lýst yfir auknum áhyggjum af því að Kína geti gert innrás og tekið eyríkið með valdi. Þær áhyggjur hafa aukist samhliða mikilli nútímavæðingu í herafla Kína og aukinni hernaðarlegri getu.