Enski boltinn

Stórlið Barcelona og AC Milan sögð vera með augun á Lingard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jesse Lingard fagnar marki sínu fyrir Manchester United á móti Newcastle United.
Jesse Lingard fagnar marki sínu fyrir Manchester United á móti Newcastle United. EPA-EFE/PETER POWELL

Jesse Lingard gæti endað hjá stórliði á Spáni eða Ítalíu ef marka má fréttir af kappanum í erlendum miðlum.

Manchester United lánaði Jesse Lingard til West Ham á síðustu leiktíð en strákurinn hefur minnt á sig með United liðinu með tveimur deildarmörkum í vetur. Lingard lagði líka upp sigurmark Cristiano Ronaldo í Meistaradeildarleik á móti Villarreal eftir að hafa komið inn á sem varamaður rétt áður.

Lingard sat hins vegar á bekknum í síðustu tveimur deildarleikjum án þess að fá að fara inn á völlinn. Um leið eru enskir blaðamenn og aðrir farnir að velta fyrir sér framtíð hans og skort á tækifærum með stórstjörnuliði Manchester United.

Jesse Lingard á aðeins hálft ár eftir af samningi sínum á Old Trafford en hann er 28 ára gamall. Lið gæti því fengið hann á frjálsri sölu næsta sumar.

ESPN hefur heimildir fyrir því að bæði Barcelona og AC Milan séu með augun á framherjanum. Það fylgir sögusögnum að Lingard sé einnig spenntur fyrir því að reyna fyrir sér á Spáni eða Ítalíu á þessum tímapunkti á ferlinum.

Peningamálin eru að skapa mikil vandræði fyrir Barcelona og þess vegna væri það góður kostur að fá leikmann eins og Lingard frítt næsta sumar.

Lingard hefur þegar hafnað samningstilboði frá United af því að hann hefur áhyggjur af því að með litlum spilatíma þá eigi hann ekki mikla möguleika á að komast í landsliðshóp Englendinga fyrir HM í Katar eftir ár.

Þrátt fyrir tvö mörk í ensku úrvalsdeildinni og eina stoðsendingu í meistaradeildinni þá hefur hann aðeins spilað samanlagt í 64 mínútur í þessum tveimur keppnum í vetur.

Lingard var í landsliðshópi Englendinga í þessum glugga og spilaði 73 mínútur í 5-0 sigrinum á Andorra um síðustu helgi eða meira en samanlagt með United liðinu í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni á leiktíðinni.

Það er enn í fersku minni fótboltaáhugamanna þegar Lingard skoraði níu mörk og gaf fimm stoðsendingar í sextán leikjum í ensku úrvalsdeildinni í fyrra þegar hann var á láni hjá West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×