Körfubolti

Skoruðu bara fjórtán stig í síðustu þremur leikhlutunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Maja Michalska skoraði sex stig fyrir Skallagrím gegn Haukum. Enginn leikmaður liðsins skoraði meira.
Maja Michalska skoraði sex stig fyrir Skallagrím gegn Haukum. Enginn leikmaður liðsins skoraði meira. vísir/vilhelm

Óhætt er að segja leikmenn Skallagríms hafi ekki fundið sóknartaktinn gegn Haukum í Subway-deild kvenna í gær. Borgnesingar skoruðu aðeins 29 stig í leiknum, þar af bara eitt í 2. leikhluta.

Skallagrímur hefur tapað öllum þremur leikjum sínum í Subway-deildinni; með fjórtán stigum gegn Keflavík, 66-80, 22 stigum gegn Val, 70-92, og svo með 64 stigum gegn Haukum í gær, 93-29.

Borgnesingar voru ellefu stigum undir eftir 1. leikhluta en skoruðu samt fimmtán stig í honum. Það sem eftir lifði leiks skoraði Skallagrímur hins vegar aðeins fjórtán stig.

Annar leikhlutinn var verstur en þar skoraði Skallagrímur aðeins eitt stig. Borgnesingar klikkuðu á öllum tíu skotum sínum og töpuðu boltanum níu sinnum. Nikola Nedorosíková skoraði eina stig Skallagríms í 2. leikhluta af vítalínunni.

Seinni hálfleikurinn var litlu betri en þar skoraði Skallagrímur aðeins þrettán stig samanlagt. Á endanum urðu stigin aðeins 29. Mammusu Secka, Embla Kristínardóttir og Maja Michalska voru stigahæstar í liði Skallagríms með sex stig hvor.

Leikmenn Skallagríms töpuðu boltanum alls 36 sinnum í leiknum og náðu bara 49 skotum á körfuna gegn 93 skotum hjá Haukum. Borgnesingar voru með 37 prósent nýtingu í tveggja stiga skotum og ellefu prósent í þriggja stiga skotum. Nedorosíková nýtti annað af aðeins tveimur vítaskotum Skallagríms í leiknum.

Haukar voru með 136 framlagsstig í leiknum á meðan Skallagrímur var með mínus tvö stig í framlag.

Vissulega vantaði bandarískan leikmann í lið Skallagríms en það tefldi samt fram þremur erlendum leikmönnum.

Næsti leikur Skallagríms er gegn Breiðabliki í Borgarnesi á miðvikudaginn. Ljóst er að Goran Miljevic, þjálfari Skallagríms, þarf eitthvað að fara yfir sóknarleik liðsins fyrir þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×